135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

netþjónabú.

244. mál
[15:19]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú þingforseti. Mörg fyrirtæki eru að kanna með rekstur á netþjónabúum á Íslandi í dag, og sjálfsagt miklu fleiri en þau tíu sem Össur, hv. iðnaðarráðherra, taldi upp. Það eru sjálfsagt fleiri sem hafa hug á að skoða aðstæður hér.

Eitt af því sem þessi fyrirtæki horfa mikið í, og mér finnst kannski gleymast, er nálægðin við alþjóðaflugvöll. Kæling, land, vinnuafl, ljósleiðarar, reyndar eru kannski ekki öll fyrirtæki í þessum netþjónabúum að spá í það, jafnvel að þau komi með gögn í flugi og geymi í netþjónabúum. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að hugsa um og ekki hvað síst það að vera með (Forseti hringir.) nóga raforku.