135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferðinni hluti af meginbreytingartillögupakka okkar þingmanna Vinstri grænna þar sem við lögðum til umtalsverðar hækkanir á fjárveitingum til barnabóta og vaxtabóta. Reyndar var þar sömuleiðis að finna tillögur um fjárframlög í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til sveitarfélaganna til að gera þeim kleift að hækka húsaleigubætur. Ég minni á að tekjuöflun fylgdi á móti þessum tillögum þannig að hefðu tillögur okkar í heild sinni verið samþykktar hefði afgangur af ríkissjóði og jöfnuður í ríkisfjármálum síst versnað.

Það vekur mikla furðu að þessir liðir skuli ekkert hækka í meðförum núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Alveg sérstaklega nefni ég þar vaxtabætur og húsaleigubætur því að ég hélt að öllum mönnum væri ljós þörfin fyrir að gera betur í þeim efnum, ekki síst í ljósi þess t.d. að vaxtabætur hafa nánast staðið í stað að krónutölu nú um langt skeið og ástandið á fasteignamarkaði er eins og raun ber vitni. Ekki heldur þarna örlar á efndum stórtækra kosningaloforða um að gera betur í þessum efnum á sviði velferðarmála.