135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:31]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um heimild til Landsvirkjunar til að taka allt að 32 milljarða kr. lán. Ég segi: Hér er stóriðjustefnan enn eina ferðina á fullri siglingu þrátt fyrir yfirlýsingar annars stjórnarflokksins um að hér sé tónað eitthvað niður. Sé þessi lántaka Landsvirkjunar skoðuð í þessu ljósi sýnist mér sem búið sé að afhjúpa enn eina ferðina hina raunverulegu stefnu ríkisstjórnarinnar. Landsvirkjun á að fá að reka áfram stóriðjustefnuna þrátt fyrir mótmæli íbúa við Þjórsá og annars staðar þar sem henni hefur verið andæft. Ég get ekki samþykkt þessa lántökuheimild vegna þess að ég er þess fullviss að ríkisstjórnin á að geta tónað niður þessa stóriðjustefnu og ég vildi sjá vilja í þeim efnum — en ekki þetta. Ég segi nei.