135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

fjárhagur sveitarfélaga og samskipti ríkisins við þau.

[13:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er reyndar nokkuð liðið síðan ég bað um þessa umræðu. Það var strax eftir fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og m.a. í tilefni af ræðu hæstv. fjármálaráðherra sem sendi sveitarfélögunum heldur kaldar kveðjur, að mér fannst, a.m.k. þeim þeirra sem stríða við mestan fjárhagsvanda og sló meira og minna út af borðinu allar hugmyndir sem til umræðu höfðu verið um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í nýjum tekjustofnum, eins og fjármagnstekjuskatti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikið misgengi hefur verið í afkomu stjórnsýslustiganna á Íslandi. Á sama tíma og ríkissjóður hefur greitt niður skuldir og stendur nú vel, sem er vissulega fagnaðarefni, hafa sveitarfélögin jafnt og þétt safnað skuldum og flest ár, undanfarin 15 að tölu, hafa sveitarfélögin verið rekin með halla.

Skuldir þeirra hafa vaxið núna á milli ára, þ.e. samanlagðar skuldir og skuldbindingar, úr 130 milljörðum árið 2004 í 150 milljarða í árslok 2006. Það sem öllu alvarlegra er þó er að rekstrarerfiðleikarnir eru mjög miklir og talsverður hluti sveitarfélaganna í landinu, upp undir þriðjungur þeirra, er með sáralítið veltufé frá rekstri, jafnvel neikvætt.

Afkoman er ákaflega mismunandi. Þannig búa upp undir 2/3 hlutar sveitarfélaganna við að meðaltali þokkalega afkomu og kannski afgang upp á um 9 milljarða. Tæpur þriðjungur, tæplega 30 sveitarfélög, býr hins vegar við afleita afkomu og er gerður upp með tapi á síðasta ári sem nemur 5,5 milljörðum kr. Það er ískyggilega há tala þegar haft er í huga að hér eiga að uppistöðu í hlut lítil eða tæplega meðalstór sveitarfélög.

Heildarmyndin er skýr, afkoma sveitarfélaganna í heild er óviðunandi og þau ráða ekki við þau verkefni sem þau hafa með höndum í dag, hvað þá að þau séu í færum til að taka við nýjum. Afkoma lakast setta hlutans er með öllu óviðunandi og íbúar þeirra sveitarfélaga njóta ekki til fulls þeirrar lögbundnu þjónustu og stuðnings frá sveitarfélögum sínum og nærumhverfi sem þeim er þó ætluð samkvæmt lögum. Það liggur alveg í hlutarins eðli að möguleikar verst settu sveitarfélaganna til að bjóða sómasamlega þjónustu og taka á málefnum eru engan veginn fyrir hendi.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er fáorður og rýr um þetta eins og fleira. Þar segir: „Tekju- og verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið.“ Síðan hefur ekki meira af málinu heyrst.

Nú er það að vísu þannig að í kosningaáherslum beggja stjórnarflokkanna var heilmiklu lofað. Samfylkingin segir hér, með leyfi forseta:

„Endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að efla sveitarfélögin og færa til þeirra ný verkefni svo sem framhaldsskólann, málefni fatlaðra og aldraðra og nýja tekjustofna svo sem hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.“

Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði um þetta líka, hafði áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna. Hann lagði áherslu á styrk þeirra og að tekjustofnar sveitarfélaganna þyrftu að vera áreiðanlegir og í takt við þá tekjuþróun sem skattkerfisbreytingar stefndu að. Nýir skattstofnar, svo sem fjármagnstekjuskattur og skattar einkahlutafélaga, vegi núna meira í tekjuþróun og leggja þarf áherslu á að hluti þessara nýju tekjustofna fari í að styrkja stöðu sveitarfélaganna.

Þegar maður les kosningaloforð beggja stjórnarflokkanna hefði mátt ætla að það væri borðleggjandi að nú væri í undirbúningi, ef ekki komin til ákvörðunar, upptaka nýrra og breiðari tekjustofna fyrir sveitarfélögin, en það er öðru nær. Í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sló fjármálaráðherra í raun og veru þessar hugmyndir út af borðinu og vísað er í að málið sé í einhvers konar endurskoðunarfarvegi eða nefnd og síðan hefur ekkert af því heyrst.

Nú stefnir í lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 og þess vegna er tímabært að spyrja: Hvar er málið statt hjá hæstv. ríkisstjórn? Í fjárlagafrumvarpi eftir 2. umr. er ekkert um það að finna að ríkisstjórnin ætli, eins og lofað hefur þó verið, að koma til móts við sveitarfélög til að lækka skuldir þeirra. Það er liður í yfirlýsingu fjármálaráðherra og sveitarfélaganna frá síðasta vori og það bólar heldur ekki á því að sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í stærri tekjum eða annað í þeim dúr eins og einstakir þingmenn stjórnarliðsins hafa þó tekið undir, eðlilega því að það er í samræmi við kosningaloforð þeirra flokka.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson og Kristján Þór Júlíusson hygg ég að séu báðir í þeim hópi sem hafa t.d. tekið undir það að sveitarfélögin ættu að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Þar sem (Forseti hringir.) þetta mál er svona afvelta og heyrir undir marga ráðherra hæstv. ríkisstjórnar held ég að það sé tímabært að hæstv. forsætisráðherra geri grein fyrir stöðunni. (Forseti hringir.)