135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel í ljósi þess sem fram kemur hjá hv. þingmanni að nauðsynlegt sé að prenta álit meiri hlutans upp með þeim hætti að umsagnir frá nefndunum fylgi álitinu. Ég tel nauðsynlegt að við höfum þær umsagnir við umræðuna. Ég starfa t.d. ekki lengur í allsherjarnefnd og gerði hreinlega ráð fyrir að ég fengi sjónarmið nefndanna í þessu skjali. Mér sýnist að það hafi verið tíðkað hér á þingi, ég nefni fjárlagafrumvarpið aftur. Ég óska eftir því að nefndarálitið verði prentað upp með þessum gögnum.

Af svari hv. þingmanns um kostnaðarmat er ljóst að upplýsingar um kostnaðinn sem leiðir af frumvarpinu hafa verið allsendis ónógar. Ég sé ekki hvernig ríkisstjórnin ætlar að fá það heim og saman að verulegar kostnaðarbreytingar verði við þessa framkvæmd. Við þekkjum það sem áður höfum komið að því að breyta stjórnsýslunni og flytja þar til störf eða verkefni að ávallt hefur gríðarlegur kostnaður komið í bakið á okkur, mismikill. Mér finnst nauðsynlegt að horfa til þeirrar reynslu þegar jafnviðamikið mál og þetta fer í gegnum Alþingi. Ég sé ekki á svörum hv. þingmanns að litið hafi verið til þeirrar reynslu eða að menn hafi áttað sig nógu vel á því hvert umfang þessara flutninga kemur til með að verða.

Að lokum saknaði ég þess í andsvari hv. þingmanns að hann nefndi stjórnsýslumatið og hvatningu umboðsmanns. Ég vona að hann komi með svör við því í síðara andsvari sínu.