135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Guðni Ágústsson skuli taka þetta mál til umfjöllunar á þessum tímamótum þegar búið er að setja Kárahnjúkavirkjun í gang. Það var mikil gleðistund á föstudaginn þegar það gerðist, ekki síst fyrir okkur sem höfum staðið í þeirri baráttu áratugum saman að reyna að byggja almennilega upp atvinnulíf á Austurlandi sem væri mótvægi við þeirri miklu neikvæðu þróun sem búin er að vera allt of lengi. Það sem er ekki síður merkilegt við þá framkvæmd er að þar er í fyrsta skipti byggt upp á þennan hátt á landsbyggðinni.

Við áttum mjög lengi við þá mýtu að eingöngu væri hægt að byggja upp slíkan stóriðnað á höfuðborgarsvæðinu. Nú er búið að sýna og sanna að það þarf ekki að gera það á því svæði, það er hægt að gera það annars staðar. Ég vil segja: Það er komið nóg á höfuðborgarsvæðinu, á suðvesturhorninu, við þurfum að horfa til annarra landshluta. Fordæmið fyrir austan eigum við að nýta til þess. Nú horfa menn eðlilega á Húsavíkursvæðið sem á að vera næst í röðinni vegna þess að það liggur beinast við. Það er í mínum huga þjóðhagslega óhagkvæmt og glapræði að ætla að fara að byggja upp slíkan stóriðnað á suðvesturhorninu. Við þurfum sem sagt með svona verkum að vinna gegn þeirri íbúaþróun sem allt of lengi hefur verið.

Við sáum stóran hluta af því fyrir. Fyrir margt löngu hefði mátt gera áætlanir um að bregðast við vegna þess að þróunin í sjávarútvegi var að mestu leyti fyrirséð. Við þurfum hins vegar að halda áfram með verkið fyrir austan til að tryggja að það skili þeim árangri sem að var stefnt. Uppbyggingunni er að sjálfsögðu ekki lokið og svæði fyrir austan njóta hennar ekki eins vel, en það er líka á Miðausturlandi sem ýmislegt er ógert, bæði á sviði menntunar, heilbrigðismála og samgangna. Þar bíða stór verk sem þarf að einhenda sér í sem allra fyrst.