135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:52]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Hæstv. forseti. Mér verður svolítið hugsað til þessara jaðarbyggða á Austurlandi. Vissulega er alveg rétt að mikill uppgangur hefur verið á Miðausturlandi í kjölfar Kárahnjúkavirkjunar og álversins. En þarna úti eru líka lítil þorp, samfélög fólks sem kýs að búa þarna, vill fá að búa þarna, vill fá að vinna fyrir sér en undan því hefur öllu verið kippt, öllum sjávarútvegi. Ég heyrði í vor að á Djúpavogi hefðu verið 30 dagróðrabátar, en nú væru eftir þrír. Ég kom í Breiðdalsvík og mér datt í hug gömul bók sem ég las þegar ég var lítil stúlka, Þorpið sem svaf, því að það leið klukkutími áður en ég sá lifandi manneskju í þessu þorpi. Hana fann ég í íþróttahúsinu í skólanum. Það vildi að vísu til að það var páskafrí sem getur hafa átt hlut að máli.

Í Breiðdalsvík er kaupfélagið opið tvo tíma á dag. Frystihúsið var opnað 1–2 daga í viku. Það var veruleikinn þeirra, það var góðærið þeirra og það var það sem við fengum að sjá. Ég vona svo sannarlega að þetta hafi eitthvað breyst með haustinu, en ég efast stórlega um það. Við megum ekki, þrátt fyrir að vera stoltir foreldrar eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn og öll stjúpfjölskyldan í formi Samfylkingarinnar, vera svo grobbin af afkvæminu að við komum fram við það eins og faðir drengsins sem fékk stígvélaða köttinn í arf af því að það var búið að úthluta þessum elstu og fínustu, (Forseti hringir.) öllu sem var til skiptanna. Við verðum að hugsa líka um jaðarbyggðirnar.