135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

atvinnuuppbygging á Austurlandi.

[15:54]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Á hluta Austurlands hefur uppbyggingin verið mjög mikil og góð. Það er ekki vafa undirorpið að atvinnuáhrif vegna virkjunar og stóriðjuuppbyggingar eru mikil í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði. Það hefur hins vegar valdið vonbrigðum að áhrif á atvinnulíf í öðrum byggðum Austurlands hafa ekki verið umtalsverð og sums staðar er talið að ruðningsáhrif hafi komið fram.

Þetta segir okkur eingöngu þá sögu að áfram beri að huga að atvinnugreinum sem geta tekið við eðlilegum samdrætti í hefðbundnum atvinnugreinum. Tæknibreytingar í sjávarútvegi og landbúnaði hafa haft þau áhrif að fjöldi starfa hefur dregist verulega saman þrátt fyrir mjög aukna framleiðni fyrirtækjanna og búanna. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Því er það svo á Austurlandi, eins og annars staðar á landsbyggðinni, að aðrar atvinnugreinar verða að taka við af hinum hefðbundnu. Það er einu sinni þannig að þessar tæknibreytingar sem hafa orðið í sjávarútvegi og landbúnaði hafa haft meiri áhrif. Bara í sjávarútveginum hafa tæknibreytingarnar haft meiri áhrif en niðurskurður þorskaflans.

Það er ekki líklegt að eingöngu ein atvinnugrein taki við, það verður að horfa vítt yfir sviðið. Möguleikar á Austurlandi eru miklir ef horft er til náttúrugæða, mannauðs og staðsetningar og það eru margar atvinnugreinar sem hægt er að horfa til. Meginatriðið er að við verðum að horfa til allra átta, Austurland verður að hafa jöfn tækifæri á við önnur landsvæði og það er ekki hægt að afgreiða Austurland með þeim hætti að búið sé að ljúka öllum málum með virkjunum og stóriðju. Þvert á móti á að nýta þann byr sem fylgdi þeim krafti sem kom inn í samfélagið með þessari góðu atvinnuuppbyggingu — og bæta við. Þá getum við virkilega sagt að við höfum (Forseti hringir.) snúið vörn í sókn og það er á forræði hæstv. iðnaðarráðherra að nýta stoðkerfi atvinnulífsins, að það leggist á (Forseti hringir.) sveif með Austfirðingum til að bæta við nýjum störfum.