135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

lífríki Hvalfjarðar.

73. mál
[18:57]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr mig um lífríki Hvalfjarðar sérstaklega og hvort nýlega hafi farið fram heildarúttekt á lífríki og vistkerfi Hvalfjarðar. Því er til að svara að ekki hefur farið fram sérstök heildarúttekt á lífríki og vistkerfi Hvalfjarðar nýlega. Árin 1973–1975 var gerð mjög ítarleg úttekt á lífríki fjarðarins í tengslum við byggingu járnblendiverksmiðjunnar sem þá var í undirbúningi. Þá mun hafa verið fyrirhugað að endurtaka slíka athugun á fimm ára fresti en af því hefur hins vegar ekki orðið og að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands væri erfitt að bera niðurstöður sambærilegrar heildarúttektar nú saman við þessa rúmlega 30 ára gömlu úttekt þar sem gæði gagna frá þeim tíma eru tæpast nægilega mikil til að marktækur samanburður fáist.

Hins vegar fer fram regluleg vöktun á ýmsum umhverfisþáttum í Hvalfirði, m.a. í tengslum við starfsemi mengandi stóriðju á Grundartanga. Þannig hefur Náttúrufræðistofnun vaktað fléttur og mosa í klappasamfélögum vítt og breitt um fjörðinn síðan 1975 samkvæmt samningi við verksmiðjurnar á Grundartanga og m.a. skoðað þungmálmamengun í þeim. Árið 2005 var söfnunarnetið þétt við Grundartanga og því eru til allgóðar upplýsingar um dreifingu þungmálma frá þeim tíma í nágrenni iðjuveranna á tanganum.

Þá má nefna í því samhengi vöktun á eitruðum svifþörungum í sjó í Hvalfirði ásamt nokkrum fleiri stöðum á landinu til að reyna að koma í veg fyrir sýkingu fólks vegna neyslu eitraðs skelfisks og/eða dauða í fiskeldi.

Hv. þingmaður spyr mig áfram um hvernig rannsóknum og vöktun sé fylgt eftir og hver haldi utan um þau verkefni. Umhverfisstofnun hefur umsjón með vöktun á umhverfisþáttum í tengslum við mengandi starfsemi í Hvalfirði. Framkvæmdar voru bakgrunnrannsóknir samkvæmt sérstökum samningi á milli Umhverfisstofnunar, áður Hollustuverndar ríkisins, og rekstraraðila á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Fyrirtækin á Grundartanga kosta vöktunaráætlun sem Umhverfisstofnun hefur samþykkt. Óháðir aðilar framkvæma mælingarnar og árlega eru skýrslur með niðurstöðum mælinganna sendar Umhverfisstofnun og niðurstöðurnar kynntar fulltrúum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Vinnueftirlits ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vesturlandssvæðis, sveitarstjórna í nálægum sveitarfélögum og íbúasamtaka á svæðinu á sérstökum kynningarfundum með reglulegum hætti.

Varðandi vöktun eitraðra svifþörunga í sjó hefur Hafrannsóknastofnun í samvinnu við Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Umhverfisstofnun vaktað magn svifþörunga á nokkrum stöðum við landið en þeir eru Breiðafjörður, Eyjafjörður, Mjóifjörður eystri og Hvalfjörður. Umhverfisstofnun hefur staðið að sýnatöku í Hvalfirði sem er vinsæll kræklingatínslustaður meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu eins og vitað er. Á undanförnum árum hefur komið fram að magn eitraðra svifþörunga getur verið yfir hættumörkum frá maí og fram í októbermánuð. Ef magn eitraðra svifþörunga er yfir viðmiðunarmörkum er veruleg hætta á að kræklingur og annar skelfiskur sé óhæfur til neyslu. Umhverfisstofnun hefur því beint því til fólks sem hyggur á kræklingatínslu í Hvalfirði og víðar að fylgjast með upplýsingum frá stofnuninni á heimasíðu hennar m.a. um þessi efni.

Hvað varðar erindið sem hv. þingmaður vísaði í, erindi til fjárlaganefndar frá Hvalfjarðarsveit, hef ég ekki haft tækifæri til að kynna mér það, það hefur ekki borist inn í umhverfisráðuneytið en hefur að sjálfsögðu verið til umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd. Ég lýsi ánægju minni með að sveitarstjórnin skuli hafa metnað og áhuga á því að taka á grunnrannsóknum á lífríki Hvalfjarðar með þessum hætti. Það er vissulega rétt sem hv. þm. Jón Bjarnason segir, Hvalfjörður er auðvitað undir miklu álagi af þeirri miklu iðnaðarstarfsemi sem þar er og þar eru líka Hvalfjarðargöngin eins og allir vita. Ekki síst þess vegna er þörf á að vakta lífríki fjarðarins vel.