135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfshópur ráðherra um loftslagsmál.

199. mál
[19:18]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Þannig er með samningana sem í hönd fara og standa munu næstu tvö ár að ráðherrahópurinn, sem hefur hér verið gerður að umtalsefni, mun starfa meðan á samningaferlinu stendur. Nú höfum við sett okkur markmið fyrir fundinn á Balí. Þau markmið fer ég með í farteskinu á loftslagsráðstefnuna í næstu viku og stend þar fyrir því sem ríkisstjórn Íslands vill koma á framfæri og vill stuðla að á fundinum, að samkomulag verði um að semja um annað skuldbindingartímabil miðað við 2°C og að þeir sem losa mest séu tilbúnir til að taka á sig verulegar byrðar til 2020.

Hvað varðar aðaláhugamál Framsóknarflokksins í umhverfismálum, að því er virðist, íslenska ákvæðið svokallaða, þá er einfaldlega ekki hægt að setja umræðuna í það samhengi að íslenskum stjórnvöldum beri skylda til að svara orkuþörf heimsins. Við höfum endurnýjanlega orku í landinu, vatnsafl og jarðvarma. Við getum nýtt hana okkur og öllum til hagsbóta og það skiptir mjög miklu máli hvernig hún er nýtt. En einnig þarf að hafa í huga, frú forseti, að sú orka er ekki óendanleg eins og haldið hefur verið fram og því sé það heilög skylda Íslendinga að virkja hverja einustu sprænu svo að hægt sé að setja niður álver í hverjum firði. Þannig er ekki hægt að nálgast málið. Það er ekki í boði vegna þess að ákveðnir hagsmunir vegast á og það þarf að gæta þeirra beggja vegna við.