135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

starfsemi Íslandspósts hf.

145. mál
[20:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin þó að ég verði að lýsa því yfir að ég hafi orðið fyrir ákveðnum vonbrigðum með viðhorf hæstv. ráðherra í þessu máli. Ráðherrann nefnir það að Íslandspóstur hafi um langa hríð verið í samkeppni á markaði og nefndi þar skeytasendingar, sölu á frímerkjum og ýmislegt annað máli sínu til stuðnings. Auðvitað er það alveg rétt en það sem ég er að vekja athygli á er að Íslandspóstur sem er ríkisfyrirtæki hefur verið að vinna ný lönd í samkeppni við einkaaðila, ekki síst einyrkja á sviði prentiðnar og fyrirtæki á ritfangamarkaði.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir og tínir til sömu rök og forsvarsmenn Íslandspósts hafa gert í umræðu um þessi mál, að samþykktir félagsins komi ekki í veg fyrir það að fyrirtækið stundi þessa starfsemi. Það þýðir hins vegar ekki að samþykktirnar séu eðlilegar og eins og við mundum, eða a.m.k. ég, vilja sjá þær.

Hæstv. ráðherra nefndi að fyrirtækið væri rekið eins og hvert annað hlutafélag. Það er nefnilega lóðið, þar er vandinn. Fyrirtækið er rekið eins og hvert annað hlutafélag en það er hins vegar ekki eins og hvert annað hlutafélag vegna þess að ríkið á alla hlutina í félaginu. Þess vegna er það ríkisfyrirtæki. Þess vegna er komin upp staða sem er óeðlileg og ósanngjörn, ríkið er í samkeppni við einkaaðila. Maður hlýtur að lýsa yfir vonbrigðum með að ráðherrann telji ekkert athugavert við það að ríkið sé undir merkjum Íslandspósts hf. farið að reka ritfangaverslun þar sem seldar eru föndurvörur, pappír, geisladiskar og fleira og farið að reka prentsmiðju, líklega 20 árum eftir að ríkisprentsmiðjan Gutenberg var einkavædd.