135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

framkvæmdir á Vestfjarðavegi.

246. mál
[20:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda og hæstv. samgönguráðherra fyrir að hreyfa þessu máli. Það er eiginlega ofmælt að kalla þá vegi sem hérna hafa verið gerðir að umtalsefni vegi, þetta eru auðvitað vegleysur. Það er ljóst að það er löngu brýnt að við sjáum bót á vegagerð á þessu svæði. Hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra lagði drög að þessu með samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti á síðastliðnu þingi og samkvæmt því er auðvitað verið að vinna núna. Flýtiféð sem fékkst við mótvægisaðgerðirnar núna í sumar gerir það að verkum að hægt er að bjóða út stærri kafla á næsta ári.

Eins og fram kom í máli hæstv. samgönguráðherra er ljóst að undirbúningurinn að svona stórum framkvæmdum tekur mjög langan tíma. Við vitum vel að þetta var umdeilt mál, m.a. út frá umhverfissjónarmiði. Það er hins vegar ástæða til þess að hvetja mjög til þess að svona málum sé hraðað eins og nokkur kostur er. Þessi vegur er auðvitað ekki mönnum bjóðandi, hvorki því fólki sem býr til að mynda í Vestur-Barðastrandarsýslu né heldur atvinnulífi og þeim sem þurfa að sinna aðdrætti um þessa leið. Það er óskaplega mikið í húfi að þessum framkvæmdum öllum sé hraðað og lokið sé við að fullu (Forseti hringir.) að tengja Vestur-Barðastrandarsýslu með nútímalegum vegi við aðalþjóðvegakerfi landsins.