135. löggjafarþing — 38. fundur,  6. des. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:22]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að okkur hv. formann viðskiptanefndar greini ekki svo mikið á í þessum efnum. Ég mun auðvitað styðja hv. formann í þeirri viðleitni að bæta mun betur um en afar sterk rök eru fyrir því að Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið sitji við sama borð í fjárveitingum.

Ég varpaði áðan fram þeirri hugmynd að eftirlitsskyldir aðilar greiddu þennan kostnað. Í sjálfu sér finnst mér það alls ekki óraunhæf hugmynd í ljósi ríkjandi fákeppni. Ef til vill má segja að munur á eftirliti þessara tveggja stofnana sé nokkuð mikill því að Fjármálaeftirlitið hefur stigið inn í miklu meira þjónustuhlutverk við fjármálafyrirtækin en eftirlitshlutverk. Þá nefni ég aftur útrásina. Það er samt staðreynd sem við þingmenn í viðskiptanefnd vorum upplýstir um að sektir síðustu árin hafa numið hærri fjárhæðum en fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins og það er umhugsunarefni vegna þess að það þýðir að stofnunin hefur þrátt fyrir allt verið skilvirk og staðið sig vel og það á auðvitað að umbuna stofnun sem stendur sig með þeim prýðilega hætti að vera í raun sjálfbær og talsvert meira en það fyrir ríkissjóð í heild sinni. Það er mikið íhugunarefni.