135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ákaflega sorglegt að þessi þáttur málsins skuli þurfa að lenda í þessari stöðu. Ég hef ástæðu til að ætla að þessi hluti verkaskiptingarinnar, hinnar breyttu verkaskiptingar innan Stjórnarráðsins sem slíkrar, hefði almennt mætt góðum hug enda væri málið sómasamlega undirbúið og tilbúið til að ganga í gildi. En það dregst inn í þennan pakka hrossakaupanna frá því á Þingvöllum, um að færa verkefni til innan Stjórnarráðsins og búa til ný ráðuneyti handa Samfylkingunni þannig að hún fái sex stóla. Málið geldur þess að vera tekið með í spyrðunni og það er að mínu mati algerlega ástæðulaust að standa svona að verki. Hér viðurkenndi hv. þingmaður að vonandi mundi þetta ganga vel en það væru ýmis óljós mál í sambandi við tölvukerfi o.fl.

Ég hef sérstaklega spurt: Hvernig ætla menn að gera þetta í blönduðu stofnununum, litlu og meðalstóru hjúkrunar- og dvalarheimilunum sem lenda þá sitt í hvora áttina í þessu tilviki? Það er ekki einfalt mál fyrir utan allar aðrar flækjur sem þarna eru. (Forseti hringir.) Ég hef engin svör fengið önnur en þau að vonandi verði þetta komið í lag 1. september næstkomandi.