135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:47]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að vita hvað hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur mikla trú á mér, að ég geti með yfirlýsingu tekið ákvörðun um skiptingu á ákveðnum liðum sem því miður eru óskiptir og jafnvel að nokkru óskilgreindir.

Ég svara því í stærra samhengi. Fjárlaganefndin hefur kallað eftir skiptingu á ýmsum verkefnum á næsta ári og jafnvel að horfa til nokkurra ára varðandi það.

Við höfum ekki fengið slíkar skiptingar. Það á bæði við um einstaka verkefni sem fara í viðhald á vegum Fasteigna ríkisins og jafnvel má nefna fjölmörg hús sem Þjóðminjasafn Íslands á sem geta hugsanlega tengst mótvægisaðgerðum. Húsakynni Þjóðminjasafns eru hringinn í kringum landið og gætu hugsanlega nýst í þeim efnum varðandi þann viðhaldsþátt sem fara á í.

Ég mun auðvitað kynna mér málið sérstaklega og við fjölluðum um það varðandi álit menntamálanefndar og Listasafns Íslands. Ég vil sjá að við stöndum vörð um Listasafn Íslands líkt og við höfum gert varðandi önnur söfn, m.a. Þjóðminjasafnið, og þegar hv. þingmenn — og reyndar miklu frekar aðrir gestir en hv. þingmenn — koma í safnið geti þeir verið stoltir af Listasafni Íslands eins og öðrum söfnum. Ég vona að það svari spurningunni að nokkru en að öðru leyti get ég ekki sagt til um skiptingu þessara óskiptu fjármuna.