135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögur frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að draga úr framlagi til hermála um tæpan milljarð kr. Það hefur vakið athygli hve mikil ákefð virðist ríkjandi, einkum hjá Samfylkingunni, til að auka útgjöld til hermála. Fer þar fremstur í flokki hinn nýi hermálaráðherra landsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar.

Það væri forvitnilegt að heyra hvernig Samfylkingin réttlætir þetta á sama tíma og útgjöld eru aukin til hermála skuli skorið niður við Landspítalann, við sjúkrahúsin í landinu, við heilsugæsluna í landinu, við dvalarheimili aldraðra á þann veg að forsvarsmenn þeirra stofnana fullyrða að þeir geti ekki haldið uppi óbreyttri þjónustu miðað við þau framlög sem eru á fjárlögum fyrir komandi ár.