135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Forseti. Hér er en látið á það reyna hvort stuðningur fáist við að hækka lítillega framlög okkar Íslendinga til þróunaraðstoðar og þróunarsamvinnu, mannúðarmála og neyðaraðstoðar í heiminum. Ísland er þar í skammarkróknum og vermir lægstu sæti meðal þróaðra ríkja ásamt Bandaríkjamönnum. Það leifir ekki af því að við komumst upp fyrir 0,2% af þjóðartekjum miðað við þau framlög sem við setjum enn í þennan málaflokk og gengur ákaflega hægt að auka framlögin. Er þó íslenska friðargæslan flokkuð þar með, sem ekki á við um aðrar þjóðir.

Við erum því óralangt frá því að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að hið opinbera verji 0,7% af þjóðartekjum til þessara verkefna. Á þó að sækja um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og menn slá um sig, bæði heima og heiman, varðandi nýjar og metnaðarfullar áherslur í alþjóðamálum. Þess sér a.m.k. ekki stað í myndarlegri aukningu á framlögum okkar til þróunarmála, einmitt þau ár sem (Forseti hringir.) afkoma ríkissjóðs er góð og mikill afgangur í ríkissjóði þannig. Því má spyrja: Hvenær er þess yfir höfuð að vænta að eitthvað jákvætt gerist í þeim efnum?