135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er tillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um jöfnun á flutningskostnaði upp á 500 millj. kr. Þetta er búið að vera baráttumál á þingi og ég minnist þess meira að segja að hæstv. núverandi samgönguráðherra stóð með þeim sem hér stendur í því að berjast fyrir jöfnun á flutningskostnaði. Í frumvarpinu voru lagðar 150 millj. kr. til jöfnunar flutningskostnaðar á Vestfjörðum samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um af svokallaðri Vestfjarðanefnd. (Gripið fram í.) Nú er þar til þess að gera almennt fært, og gott um það. Það er eitt brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar til að rétta samkeppnisstöðu atvinnulífs og búsetu að jafna flutningskostnað og hér er tillaga um að gengið sé til þess verks. Ég minnist þess að við höfum flutt þannig tillögu, við þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, og ég bíð eftir því hvort Samfylkingin ætlar nú að bregðast. (Forseti hringir.) Það er afar brýnt mál, herra forseti, að jafna flutningskostnað landsbyggðarinnar.