135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:49]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að greina frá því að hér var brugðist hratt við í þessu máli. Það var tekið til umfjöllunar í ríkisstjórn í haust og þá skipaði ég sem viðskiptaráðherra starfshóp með formanni nefndarinnar Kristjáni Þór Júlíussyni , 1. þm. Norðaust. Það geta ýmsir þakkað sér ýmislegt í því en sá hópur fékk starfstíma til 1. júní á næsta ári til að útfæra og kortleggja þörf fyrir almennan stuðning, almennar flutningsjöfnunarreglur fyrir landsbyggðina og þar kom að sjálfsögðu hæstv. samgönguráðherra mjög að málum. Hann skipar mann í nefndina ásamt hæstv. fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra. Nefndin mun taka til starfa fljótlega og það var ég sem fékk hv. þm. Kristján Þór Júlíusson til að gegna formennsku fyrir nefndinni og það var ánægjuefni að sá vaski og öflugi stjórnmálamaður skyldi vera til í það. Þess er skammt að bíða að þetta líti dagsins ljós og taki við af öðrum og sértækari flutningsjöfnunarreglum sem hér hafa (Forseti hringir.) verið hafðar uppi.