135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[15:20]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það held að öllum þingheimi ætti að vera ljóst hver stefna Frjálslynda flokksins er í sjávarútvegsmálum. Það er ótrúlegt að menn viti það ekki, eins mikið og við höfum talað um sjávarútvegsmál og ég hélt að öllum væri ljóst hvað við vildum gera. Við viljum fara út úr því fiskveiðistjórnarkerfi sem er og það eru margar leiðir færar til þess að gera það. Við ætlum ekki að gera það í einu stökki en við erum tilbúnir að gera það í áföngum.

Við ætlum að skipta flotanum upp í fjóra flokka og annað í þeim dúr. Ég hvet alþingismenn til að kynna sér stefnu Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum ef þeir þekkja hana ekki. Það er enginn árangur af því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er í gildi og þess vegna erum við að tala um að það þurfi að gera breytingar.

Það er hægt að gera með ýmsum hætti af því að hv. þm. Atli Gíslason spurði að því. Það má byrja á því að taka og fækka kvótabundnum tegundum. Af hverju erum við með skötusel, löngu og keilu í kvóta? Það er hægt að byrja á því að taka þessar þrjár tegundir. Síðan ufsa og ýsu og jafnvel fleiri tegundir. Það er allt of mikið bundið. Það er hægt að gera þetta allt í áföngum, það er hægt að snúa ofan af þessu. Það er hægt að gefa veiðar á handfærum frjálsar í þrjá, fjóra, fimm, sex mánuði eins og við höfum verið með tillögur um. Fimm mánuði að mig minnir, í frumvarpi okkar um frjálsar handfæraveiðar og annað í þeim dúr.

Það eru margar leiðir færar til þess að byrja að snúa ofan af þessu hryllilega kerfi sem engum þjónar nema fáum útvöldum. Þeim sem fengu kvótann gefins og hafa verið að kaupa til sín veiðiheimildir á lágu verði í gegnum tíðina, þúsund milljarðar frá fólkinu í landinu til fárra útvaldra, það er bara ekki hægt að sætta sig við það.