135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[00:27]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu en það er grundvallarmisskilningur í henni. Hv. þingmaður talaði eins og það hafi verið markmið okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hafa ótakmarkaðan ræðutíma í öllum umræðum eða a.m.k. 2. og 3. umr. Það er rangt, það var ekki og er ekki markmið okkar. Ég skal viðurkenna að við vorum sein að borðinu. Við vorum sein, alla vega að mati þeirra sem stjórnuðu hér för, að koma með tillögurnar, ég skal viðurkenna það, en þegar tillögur okkar að takmörkun ræðutíma lágu fyrir átti líka að ná niðurstöðu. Hv. þingmaður hefur því rangt fyrir sér þegar hann segir að það hafi verið markmið okkar að halda langar ræður og hafa hér langa fundi. Það hefur aldrei verið markmið okkar.