135. löggjafarþing — 44. fundur,  14. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[02:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni um að 35 mínútna ræða hans hafi verið löng og leiðinleg, síður en svo. Ég er einnig sammála hv. þingmanni um að snörp skoðanaskipti eru góð og æskileg. Ég er sama skapi á því máli að um flókin mál þurfi stundum að taka ítarlega umræðu.

Við skulum heldur ekki gleyma hinu. Hinar löngu ræður, sem stundum er vísað til, þarf að skoða í því samhengi sem þær verða til í. Ég get sagt litla reynslusögu af sjálfum mér. Lengsta ræða sem ég hef flutt var flutt hér eina nóttina fyrir nokkru þegar verið var að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þannig háttaði til að ég var á mælendaskrá ásamt einum öðrum einstaklingi. Ég reyndi að fá úr því skorið frá forseta þingsins hvort hann væri reiðubúinn að fresta umræðunni eftir að ég hefði lokið máli mínu vegna þess að mér var kunnugt um að aðrir þingmenn, sem ekki voru til staðar, höfðu áhuga á að halda umræðunni áfram daginn eftir. Við því vildi þáverandi hæstv. starfandi forseti þingsins ekki veita mér svör.

Ég varð þess áskynja að beita átti valdi til að stöðva umræðu sem menn vildu gjarnan halda áfram. Það var ástæðan fyrir því að ég teygði heldur á máli mínu, þó að ég sé nú á því að ræðan hafi verið málefnaleg. Hún var mjög löng og að sönnu óþarflega löng en þetta er skýringin. Við megum ekki gleyma þessu samhengi hlutanna. Þegar allt kemur til alls er þetta spurning um jafnvægi í þinginu. Það er að gerast núna að menn eru að breyta því jafnvægi og, að okkar dómi, að draga úr styrk og stöðu stjórnarandstöðu.