135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þótt hv. þingmaður geti verið svolítið stór upp á sig stundum getur hann ekki ráðið hvað við segjum í þessum ræðustól. Við erum að ræða um frumvarp þar sem fjallað er um Landspítalann og að fresta eigi fjármögnun hans, það er frumvarpið sem við fjöllum hér um.

Ég vil því spyrja hv. þm. Pétur Blöndal, sem skrifar reyndar undir minnihlutaálit í þessu máli, í ljósi þess að fresta á greiðslum til Landspítalans, fresta uppbyggingu hans, en hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hefur í skriflegu svari sagt að fara eigi yfir allar fyrri ákvarðanir þannig að ljóst er að einhvers konar frestun er í gangi af hálfu ráðherrans. Á sama tíma eru uppi hugmyndir um einhvers konar einkarekstur á Vífilsstaðalóðinni og hv. þm. Ásta Möller staðfestir það í fjölmiðlum að Sjálfstæðisflokkurinn vilji stórefla einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Og hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde segir á fundi í Valhöll að breyta eigi verulega í heilbrigðiskerfinu og að það sé hægt með Samfylkingunni. Menn hafa væntanlega samið við hana en það hefði ekki verið hægt hvorki með fyrri stjórnarflokki né öðrum. Það eru því einhverjar breytingar í farvatninu sem er mjög erfitt að átta sig á.

Í ljósi alls þessa vil ég spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort það til standi að fara í einhverjar slíkar breytingar, hvort við megum vænta þess að verið sé að grafa undan því að byggja upp Landspítalann sem háskólasjúkrahús og færa sérfræðigreinar sem þar eru og dreifa þeim hugsanlega á einhvers konar nýtt sjúkrahús á Vífilsstaðalóðinni eða annars staðar í borginni.