135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

ráðstöfun á söluandvirði Landssímans hf.

304. mál
[14:27]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vona að hv. þingmaður, hafandi verið heilbrigðisráðherra, átti sig á því sem stendur í stjórnarskránni: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Þessi lagasetning hefur ekkert gildi. Það eru fjárlögin sem gilda og við erum búin að samþykkja þau. Þessi umræða átti heima við þá lagasetningu, þar var kveðið á um þessar greiðslur allar og þar átti hv. þingmaður að koma athugasemdum sínum að. Þetta lagafrumvarp er hreinlega aðlögun að fjárlögum. Þó að þessi lög giltu áfram þá gilda að sjálfsögðu fjárlögin sem við samþykktum fyrir tveim dögum. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu gilda þau, það eru nýrri lög. Samkvæmt stjórnarskránni má ekki greiða neitt út nema samkvæmt fjárlögum. Þessi lagasetning hefur því akkúrat ekkert gildi og það er það sem ég á við þegar ég segi að hún sé í andstöðu við stjórnarskrána, ég tel að slík lagasetning sé ekki rétt en okkur vantar náttúrlega stjórnlagadómstól á Íslandi

Umræða um heilbrigðismál og fjárveitingar til þeirra o.s.frv. átti heima undir umræðunni um fjárlögin og þar átti hv. þingmaður að taka til máls.