135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[14:46]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að náðst hafi samkomulag milli tveggja stofnana ríkisins. Það er algjörlega óþolandi þegar tvær stofnanir ríkisins túlka lög á mismunandi hátt þannig að réttaróvissa myndist um hvort heimilt sé eða óheimilt að reka ákveðnar tryggingar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort svokallað neikvætt úrval hafi verið rætt í nefndinni. Sá sem ætlar að tryggja sig veit um sjúkdóma ættingja sinna o.s.frv. og þegar sjúkdómar hrannast upp í kringum hann er meiri tilhneiging til að leita að tryggingum. Það myndast neikvætt úrval og það er það sem tryggingafélögin glíma við alla tíð. Var þetta rætt í nefndinni?

Síðan er spurningin með samþykkið. Nú þarf maðurinn að lýsa því yfir að hann hafi aflað samþykkis. Gerðu menn sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem fylgja því að afla samþykkis ættingja sem erfitt er að ná í, sem eru jafnvel í útlöndum og menn hafa auk þess ekki verið í sambandi við í mörg ár, eða eru komnir út úr heiminum vegna alzheimers eða einhvers slíks? Svo maður tali ekki um þá sem eru látnir.

Spurningin er enn fremur hvort að í nefndinni hafi verið rætt hvort þessar reglur standist reglur endurtryggingafélaga þannig að hægt sé að endurtryggja þessar tryggingar erlendis sem gerir öðrum yfirleitt kleift að hafa þær hérna. Án endurtryggingar gætu tryggingafélögin ekki starfað.

Svo er spurningin: Telur hv. þingmaður að það sé yfirleitt þörf á þessum tryggingum? Er hægt bara að banna þær með því t.d. að setja nógu mikil skilyrði um þær?