135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:02]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hið ágæta nefndarálit sem hann hefur lagt fram. Í því er margt sem ég get tekið undir. Ég tel engu að síður að niðurstaða meiri hluta nefndarinnar sé ásættanleg.

Þegar við fjölluðum um þetta mál á síðasta þingi var ég sjálf þeirrar skoðunar að við ættum að fara þá leið sem hv. þingmaður leggur til, þ.e. að afla skriflegs samþykkis, en eftir að hafa velt því máli betur fyrir mér fór framkvæmdin að þvælast fyrir mér. Ég hefði viljað heyra hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér framkvæmdina á þessu skriflega samþykki.

Ég hef áhyggjur af því að þegar við höfum slíkar upplýsingar skriflegar, þá þurfa tryggingafélögin vissulega að geyma þær og halda upp á þær, eru bein persónugreinanleg gögn komin inn á borð tryggingafélaganna um þriðja aðila. Af þeirri ástæðu fór ég af þessari skoðun, þ.e. að við ættum að nota skriflega samþykkið, og stíga frekar það skref að byrja á einföldu samþykki. Mér þætti vænt um að heyra hvernig hv. þingmaður sér þessa framkvæmd fyrir sér.