135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

vátryggingarsamningar.

163. mál
[15:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því á hvaða línu hv. þingmaður er. Mér finnst hann eina stundina taka undir málflutning Læknafélagsins og annarra sem krefjast skriflegs samþykkis, upplýsts samþykkis en aðra stundina talar hv. þingmaður um að verið sé að torvelda vátryggingartöku ef krafist er samþykkis. Það sé verið að hægja á rennslinu og það komi a ættingjum viðkomandi þingmanns einfaldlega ekkert við ef hann gefur upplýsingar um heilsufarsstöðu þeirra.

Ég átta mig ekki alveg á á hvaða leið þingmaðurinn er. Vill hv. þingmaður óbreytt lög? Það þýðir að ekki þarf að gefa neitt samþykki. Þá getur viðkomandi vátryggingartaki gefið allar þær upplýsingar sem hann vill án þess að fá leyfi hjá viðkomandi. Eða vill hann fara þá leið sem hér er farin að krefjast einfalds samþykkis? Eða vill hann e.t.v. fara þriðju leiðina sem er að krefjast skriflegs samþykkis, sem hv. þm. Atli Gíslason hefur talað hér fyrir?

Ég átta mig ekki alveg á því á hvaða leið hv. þingmaður er, því að hann tekur undir málflutning aðila sem krefjast skriflegs samþykkis, vilja ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir en á sama tíma ver hann ríkjandi kerfi, gildandi lög, og segir: Við megum ekki hægja á rennslinu, við megum ekki torvelda vátryggingartaka í þeirri viðleitni að fá tryggingu. Þetta þarf að vera alveg skýrt.

Svo skil ég ekki hvernig hann snýr út úr þeim upplýsingum sem við höfum varðandi stöðuna á öðrum Norðurlöndum. Á Norðurlöndunum er hvergi krafist upplýsts samþykkis fyrir afhendingu slíkra upplýsinga og viðmiðunarfjárhæðirnar í Svíþjóð eiga bara við erfðaupplýsingar sem er bannað að krefjast hér á landi.

Það er alger útúrsnúningur að tala um að við séum að opna á heimildir til tryggingafélaganna hvað þetta varðar. Við erum einmitt að takmarka þær. Við erum að krefjast einfalds samþykkis. Ég vildi að hv. þingmaður færi aðeins skýrar yfir það hvora leiðina hann styður. Vill hann skriflegt samþykki (Forseti hringir.) eða vill hann hafa ríkjandi lög eins og hann hefur talað fyrir sem gera ekki ráð fyrir neinu samþykki?