135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[17:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu styðja þetta frumvarp. Hér er um að ræða breytingar á ýmsum millifærslum í kerfinu, þar á meðal vaxtabótum og barnabótum. En þegar farið er að rýna í tölur um þetta efni frá þessu ári, því síðasta og því sem fram undan er þá koma harla undarlegir hlutir í ljós. Þannig kemur í ljós að barnabætur með fyrsta barni á árinu 2007 eru 139.647 kr., nákvæmlega sama krónutala og var á árinu 2006.

Hver skyldi þróunin síðan eiga að vera á komandi ári? Jú, þá eiga þessar bætur, bæði vaxtabætur og barnabætur að hækka samkvæmt verðlagsforsendum fjárlagafrumvarpsins um 3,2%. Nú gera flestir ráð fyrir því að verðbólgan verði ívið meiri en þessu nemur. Á sama hátt og reyndist í fyrra voru verðlagsspár eða verðlagsforsendur fjárlaga 4,8% en reyndust verða 5,9% þegar upp var staðið.

Í ljósi þess að Samfylkingin hét því fyrir síðustu alþingiskosningar að rétta hlut landsmanna og sérstaklega barnafjölskyldunnar — hún talaði um stórfelld svik í því efni, stórfelld svik sem yrðu leiðrétt þegar Jafnaðarmannaflokkur Íslands væri kominn í Stjórnarráðið. (Gripið fram í.) Nú er að koma í ljós að barnabæturnar verða skertar, skertar að raungildi á komandi ári og það er Jafnaðarmannaflokkur Íslands, það er Samfylkingin sem þar heldur um niðurskurðarsveðjuna. Finnst mönnum þetta sæmandi? Ég vildi, hæstv. forseti, (Gripið fram í.) að þessi kosningasvik yrðu skráð í þingsöguna.