135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:13]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að nota þetta tækifæri til að fagna þeirri umræðu sem fer hér fram um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

Það vill svo til að þegar ég starfaði hér handan Tjarnarinnar fylgdist ég stundum með umræðu um samgöngumál á hinu háa Alþingi og ég saknaði oft í þeirri umræðu áherslu á höfuðborgarsvæðið. Mér finnst hins vegar umræðan í dag sýna að viðhorf manna eru að breytast, menn eru að átta sig á að á þessu svæði, þar sem langflestir íbúar landsins búa, er orðin þörf á miklu átaki í samgöngumálum og skilningurinn er að aukast, ekki bara á Sundabraut og Vesturlandsvegi heldur öllum helstu stofnæðum til og frá Reykjavík. Ég fagna því og tel að þetta sé til marks um breytta tíma og breytt viðhorf alþingismanna til höfuðborgarinnar og mikilvægi samgangna til og frá Reykjavík.