135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

323. mál
[15:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Þetta er ágæt umræða svo langt sem hún nær. Hæstv. samgönguráðherra lýsir þeirri skoðun sinni hér að það sé í raun ekki orðið tímabært að taka ákvörðun um tvöföldun Hvalfjarðarganga. Það er út af fyrir sig virðingarvert sjónarmið sem hann setur þar fram og komið hefur fram að mörg önnur verkefni séu brýnni en akkúrat göngin.

Ég held hins vegar að þegar við horfum á svæðið í heild sinni, þá miklu umferðaraukningu sem orðið hefur og mikilvægi þess að auka umferðaröryggi þar sem mikil umferð er — við ræðum hér um Sundabrautina, Vesturlandsveginn og jafnvel alla leiðina upp í Borgarnes — þá munu einföld Hvalfjarðargöng alltaf verða nokkur farartálmi sem óskynsamlegt er að búa við. Ég held að mikilvægt sé að horfa á málið í samhengi og hefja stefnumótandi umræðu um hvort og hvenær komi að tvöföldun Hvalfjarðarganga jafnvel þótt hún sé ekki fyrst í röðinni. Ég óska eftir að slík umræða fari fram.

Enn varðandi veggjöld þá vil ég minna hæstv. samgönguráðherra á það, sem honum er væntanlega kunnugt um, að ég hef hér ásamt fleiri þingmönnum Vinstri grænna lagt fram tillögu til þingsályktunar um yfirtöku ríkisins á Speli og niðurfellingu veggjalda í Hvalfjarðargöng. Það lýsir auðvitað þeirri afstöðu minni að fella beri niður veggjöld í Hvalfjarðargöngum og að ég telji þau ekki rökrétt eins og þau eru. Það þýðir ekki að ég sé ekki reiðubúinn til umræðu um almenna gjaldtöku í umferðarkerfinu til að kosta margs konar mikilvægar samgöngubætur, ekki bara í vegamálum heldur einnig til að bæta aðbúnað svo sem í almenningssamgöngum á þéttbýlissvæðum. Sú umræða — og ég tek undir það með hæstv. ráðherra — verður að fara heildstætt fram og á þeim forsendum að verið sé að ræða almennt um gjaldtöku í samgöngukerfinu, ekki síst frá umhverfislegu sjónarmiði. Ég er reiðubúinn til að ræða um það (Forseti hringir.) hvenær sem hæstv. ráðherra vill, á hvaða vettvangi sem er.