135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

vernd lögreglumanna og refsingar við líkamsárásum.

[10:50]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Spurning hv. þingmanns var í raun og veru tvíþætt, annars vegar að því er varðar vernd opinberra starfsmanna og sérstaklega lögreglumanna og hins vegar brot á 218. gr. almennra hegningarlaga.

Að því er lögreglumennina varðar samþykkti Alþingi á síðasta ári hert ákvæði í 106. gr. almennra hegningarlaga, ef ég man rétt, sem verndar lögreglumenn og þá sem starfa á vegum ríkisins og hafa valdheimildir, þau ákvæði voru hert. Send voru skýr skilaboð frá þinginu um að menn vildu að gerðar yrðu meiri ráðstafanir en áður til að vernda öryggi lögreglumanna á grundvelli löggjafarinnar.

Einnig hefur dómsmálaráðuneytið unnið að því með embætti ríkislögreglustjóra að treysta öryggi lögreglumanna og skapa þær aðstæður að það sé tekið mjög skipulega á þeim málum, lögreglumönnum veitt aðstoð og komið til móts við þá eins og kostur er. Síðan er það dómstólanna, eins og hv. þingmaður gat um, að dæma um bætur og skaðabætur.

Ég ætla ekki að fara yfir þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi og tiltók hér þegar hann vísaði til 218. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel að það sé refsifræðilegt athugunarefni að gera úttekt á því hvernig slíkir dómar eru. En það er alveg ljóst að í samfélaginu eru uppi háværar kröfur um að felldir séu þyngri dómar og að tekið sé harðar á málum eins og þessum.