135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:43]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að fagna þessari tillögu um fordæmingu á mannréttindabrotum í fangabúðunum í Guantanamo. Í yfirlýsingunni eru bandarísk yfirvöld hvött til að loka fangabúðunum þar sem pyndingar viðgangast eins og fram hefur komið í máli manna hér. Margir velta fyrir sér: Hvað höfum við að segja í alþjóðasamfélaginu, svona lítið land, 300 þúsund hræður, hvað erum við að vilja upp á dekk? Eigum við að vera að tala um þessa hluti?

Einn kafli í Íslandsklukkunni hefst á þessum orðum: „Gamla konu langar í ferðalag.“ Verið er að lýsa Íslandi á 18. öld þar sem er mikil fátækt og vosbúð og fólk er hart leikið. Verið er að lýsa því hvernig farið var með fanga á Íslandi á þessum tíma og hversu mikil grimmd ríkti í samfélaginu gagnvart fátæklingum og smælingjum og mörgu öðru fólki, réttarríki var alls ekki við lýði. En þó að umrædd kona væri gömul og fátæk lagði hún af stað í ferðalag til að koma syni sínum til hjálpar, til að fara fram fyrir hið mikla og háa vald og leita ásjár. Sonur hennar, Jón Hreggviðsson, hafði verið dæmdur og lent í miklum hrakningum eins og segir frá í hinni ágætu bók.

Það er full ástæða fyrir okkur, sem erum ekki herveldi, erum ekki milljónaþjóð, að leggja slíkar ályktanir fram fyrir alþjóðasamfélagið og gera þá kröfu að hlustað sé á þau orð sem koma fram í þingsályktunartillögunni um að fangabúðunum í Guantanamo verði lokað. Á þeirri stundu sem við erum hér í þessum sal að tala um þetta mál eru í þeim búðum drengir sem einmitt vona að einhverjir tali svona þó á litlu þjóðþingi sé. Hvert einasta orð sem sagt er til hjálpar þeim sem eru píndir eða kúgaðir á einhvern hátt er lóð á vogarskálar réttlætisins. Ég fagna því tillögunni og mér finnst gott að hún komi hér fram. Ég vænti þess að utanríkismálanefnd afgreiði tillöguna svo að hún flytji erindi sitt út í alþjóðasamfélagið.

Því hefur verið lýst á mjög dramatískan hátt hér hvernig komið var fram við einn dreng í þessu fangelsi og það var mjög átakanlegt að heyra það. Það ætti líka að vekja okkur til umhugsunar um aðra fanga víða um heim því að margt fólk er lokað inni í fangelsum fyrir engar sakir. Við eigum ávallt að vera vakandi í orðræðunni, í umræðunni um mannréttindi og að vel sé komið fram við fólk sem verður fyrir ásökunum. Við verðum einnig að vera vakandi fyrir því, ef við viljum hafa mannúð að leiðarljósi, hvernig við viljum koma fram við fólk sem hefur verið fundið sekt um glæpi og ýmis önnur brot. Hver eiga markmiðin að vera með því að loka fólk inni? Það geta verið refsingar. Við eigum líka að hafa það markmið að fangelsi, ekki síst í lýðræðisríkjum, séu þannig upp byggð að fólk sem fer þangað inn komi betra út og takist að höndla lífið þegar það er komið út úr fangelsinu svo að það lendi þar ekki aftur.

Ég vil nota tækifærið sem gefst í þessari umræðu til að minna á að á Íslandi er fangelsi starfrækt á undanþágu, sem er Skólavörðustígur 9. Við verðum líka að líta í eigin barm hvað þessi mál öll varðar og vera vakandi fyrir því hvernig við komum fram, hvernig samfélagið kemur fram við afbrotamenn, hvort við viljum horfa á þau mál með refsigleði að leiðarljósi, ef svo má að orði komast, eða horfa þannig á málin að við viljum að fólk komi betra út og geti tekið eðlilegan þátt í samfélagi okkar.

Að lokum vil ég þakka fyrir þessa góðu þingsályktunartillögu. Hún hlýtur að vekja fólk til umhugsunar um það að ríki sem sífellt státar af lýðræðishugsun, að það sé réttarríki og vilji vinna á móti hinu illa í heiminum, skuli reka slíkar fangabúðir. Það er ekkert annað en þversögn, í raun og veru hræsni.