135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

Vegagerðin.

[15:16]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú ætla ekki að setja mig inn í þankagang Framsóknarflokksins um hvernig skipað verður í nefndir á Alþingi ef þetta eða hitt gerist. Ég hef í sjálfu sér ekkert við þetta að bæta. En það er auðvitað metnaðarfull og góð áætlun í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að flytja störf og efla störf á landsbyggðinni, m.a. störf án staðsetningar. Að þessu er unnið og við vonumst til að fara að sjá eitthvað gerast.

Hv. þingmaður talaði um að ég hefði oft rætt um byggðamál áður fyrr, sem ég gerði, við hæstv. þáverandi byggðamálaráðherra Valgerði Sverrisdóttur, sem þó mátti ekki kalla byggðamálaráðherra einhverra hluta vegna en það er annar handleggur. Mér er það minnisstætt að á fyrstu dögum hennar í iðnaðarráðuneytinu var tekin saman stór og mikil skýrsla af ráðgjafarfyrirtæki úti í bæ um flutning 200–300 starfa á vegum iðnaðarráðuneytisins út um allt land, Löggildingarstofa og ég man nú ekki hvað þetta allt saman hét. En (Forseti hringir.) ég hef líka tekið eftir því að það var ekkert mikið af því gert og ekki mikið af því flutt og hvernig stóð á því, virðulegi forseti, að ekkert var flutt?