135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:33]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Lengi skal manninn reyna, segir í einhvers staðar og sama á nú við um þann stjórnarmeirihluta sem situr í okkar góða landi. Hér hefur lítillega verið rætt um efnahagsmál undanfarna daga en þó miklu minna en vert væri því að þau mál eru vissulega mál málanna þessa dagana og margir váboðar á lofti.

Ég kalla hér eftir því að einhver innan stjórnarmeirihlutans geri sér grein fyrir alvöru málsins. Þrátt fyrir að gott samkomulag sé á stjórnarheimilinu eins og komið hefur fram í ræðum ráðherra og gott samkomulag innan fjárlaganefndar eins og við höfum vitnað um sem þar sitjum, þá er ekki þar með sagt að pólitísk samstaða sé um mat á ástandinu.

Í mínum huga er ástandið grafalvarlegt en það er ekki skoðun hv. formanns fjárlaganefndar sem sagði í ræðu fyrir tæpri viku að því væri spáð að gengi krónunnar gæfi lítillega eftir á næstu tveimur árum og það væru þær kennitölur í efnahagsmálum sem ýmsir gætu kallað sveiflu.

Ég hef miklar áhyggjur af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og ég vil í rauninni segja algjöru kjarkleysi til að takast á við erfiða og alvarlega stöðu í efnahagsmálum sem er ekki bara innlent vandamál heldur líka erlent vandamál. Ég vitna hér í viðtal sama dag og þessi umræða fór fram á mjög léttum nótum hér í þinginu en þar segir einn af fremstu hagfræðingum Landsbankans, Björn Þór Guðmundsson, að í hinum vestræna heimi sé von á jafnvel meiri kreppu en sést hefur í 50 ár.

Nú kalla ég eftir því hvort einhver meðal stjórnarmeirihlutans, og sérstaklega er mér þar hugsað til hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, varaformanns fjárlaganefndar, (Forseti hringir.) en það hefur löngum verið há staða að vera varaformaður þeirrar nefndar, sjái kannski hlutina í eitthvað skynsamlegra ljósi en hér hefur komið fram fram til þessa.