135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er að sönnu skemmtileg umræða og ég tek undir það með hv. þingmönnum að það væri ágætt að gefa sér lengri tíma í hana. Hér hafa fallið nokkuð stór orð, menn hafa borið ríkisstjórn eða einstaka þingmenn þeim sökum að þeir sýni agaleysi og kjarkleysi og þori ekki að takast á við vandamálin. Ég held að það hafi komið fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni áðan að ríkisstjórnin hafi vísað frá sér allri aðkomu að kjarasamningum. Það er alrangt og ekki fótur fyrir því. Ríkisstjórnin hefur þvert á móti gefið til kynna að hún muni koma að þeim málum en samningsaðilar verða að sjálfsögðu að vinna mál sín lengra en orðið er áður en ríkisstjórnin getur farið að gefa nokkuð út. Það þýðir ekki að menn hafi hafnað aðkomu að þessu verki, langur vegur frá.

Hv. þm. Bjarni Harðarson sagði að menn horfðust ekki í augu við þennan vanda og vildu bara halda ró sinni. Ég vil minna á að það er mjög mikilvægt að halda ró sinni á þessum tímum og aldrei mikilvægara en einmitt nú. Það eru einungis liðnir 22 dagar af þessu ári og töluverður tími er eftir. Atvinnulífið er að bregðast við, fjármálastofnanir eru að bregaðst við og ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að samráð milli Seðlabanka Íslands, ríkisstjórnarinnar og aðila á fjármálamörkuðum er í fullum gangi. Dettur mönnum í hug að þeir hlaupi eftir því hvernig Framsóknarflokkurinn gasprar hér úti á torgum og bregðist við út frá þeirri umræðu? Langur vegur frá og engin ástæða til.

Ég vil nefna hér að það er tvennt í umræðunni sem menn skulu íhuga. Það er í fyrsta lagi að Seðlabankinn getur gripið til aðgerða í vaxtamálum, að lækka vexti þegar þar að kemur og verðbólgustigið gefur tilefni til. (Gripið fram í.) Í öðru lagi ætti ríkisvaldið aldrei fremur en á slíkum tímum að ræða möguleika á því að lækka skatta á fólk og fyrirtæki. Þetta má ræða og ég skora á menn að taka það til umræðu.