135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:08]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hafið yfir allan vafa að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna ber að taka alvarlega. Það hef ég sagt frá fyrsta degi eftir að álitið kom fram. Hvað sem okkur finnst um hina efnislegu niðurstöðu er ljóst að við erum aðilar að mannréttindasáttmálanum og hinni valfrjálsu bókun sem kveður á um að nefndin sé bær til þess að fjalla um erindi einstaklinga sem halda því fram að aðildarríki hafi brotið gegn samningnum. Nú liggur fyrir álit nefndarinnar í máli tveggja sjómanna sem skutu máli sínu til hennar. Niðurstaða hennar er sú að taka ekki afstöðu til þess hvort kvótakerfið brjóti í bága við ákvæði samningsins, sérstakar aðstæður í þessu tiltekna máli leiði hins vegar til þess að eignarréttindi sem farið hefði verið með varanlegum hætti til kvótaeigenda þar sem kærendur væru útilokaðir hefðu ekki verið stofnuð á sanngirnisgrundvelli. Þá tekur nefndin fram í niðurstöðu sinni að íslenska ríkinu sé skylt með vísan til 2. gr. samningsins að veita kærendum raunhæfar úrbætur, þar með talið viðeigandi bætur og endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins.

Gallinn við þessa niðurstöðu er sá að hún er hvorki ýkja skýr né verður sagt að hún sé mikið rökstudd. Það er því ljóst að við verðum að ætla okkur nægan tíma til að fara yfir málið og bregðast við því svo að vel sé. Ef við köstum höndunum til þessa verks væri fyrst hægt að segja að við tækjum ekki álit þessarar nefndar alvarlega.

En hver er þá staða okkar að öðru leyti gagnvart þessu máli?

Mannréttindanefnd er ekki alþjóðlegur dómstóll sem kveður upp lagalega bindandi dóma eða úrskurði að þjóðarétti. Að þessu leyti er niðurstaðan eðlisólík dómum frá Mannréttindadómstóli Evrópu. Engin úrræði eru af þessum sökum veitt til að fylgja eftir niðurstöðum mannréttindanefndar en þrátt fyrir að niðurstöður nefndarinnar séu ekki lagalega bindandi hafa þær engu að síður verið taldar mjög mikilvægar og ríkið almennt reynt að fylgja þeim eftir. Nefndin hefur í niðurstöðum sínum vísað til þess að samkvæmt a-lið 2. gr. samningsins sé ríkjum skylt að ábyrgjast eða veita þeim sem réttur er brotinn á raunhæfar úrbætur. Skortur á því að álit nefndarinnar séu lagalega skuldbindandi er þó talinn helsti veikleiki hennar og í ársskýrslu hennar frá árinu 2004 kemur t.d. fram að misjafnt sé hvort ríki fari eftir niðurstöðu mannréttindanefndar, en á heildina litið séu ráðstafanir ríkja til að bregðast við álitum hennar ófullnægjandi.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að öll Norðurlöndin hafa fengið á sig kærur um brot á ákvæðum þeim sem mannréttindanefnd hefur fjallað um. Þau hafa enn fremur fengið það álit nefndarinnar að þau hafi brotið gegn ákvæðum alþjóðasamningsins sem ég nefndi áðan, um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem mannréttindanefnd fjallar um.

Stóryrði sem fallið hafa um þessa skoðun nefndarinnar hvað Ísland áhrærir, eins og það sem m.a. kom fram í utandagskrárumræðum í gær, generalprufunni fyrir þá umræðu sem nú fer fram, er þess vegna alveg út í hött. Gleymum því ekki að það sem um er að ræða er skoðun þessarar nefndar, „view“ á enskri tungu, álit eða sjónarmið. Það er þess vegna sérkennilegt þegar einstaka menn hafa talað eins og við séum bundin slíku áliti að þjóðarétti. Hélt ég þó að það væri óumdeilt meðal fræðimanna sem um þessi mál hafa fjallað að svo væri ekki, enda hlytu þá að vakna spurningar um meint fullveldisframsal sem falist hefði í fullgildingu samningsins og spurningar sem snerta að þessu leyti stjórnarskrá okkar. Ég vara mjög við því að menn dragi of stórkarlalegar ályktanir af þessari skoðun mannréttindanefndar eða er það skoðun þeirra sem hafa talað gáleysislegast um þessi mál að fiskveiðistjórnarkerfi með framseljanlegum aflaheimildum sé í ósamræmi við títtnefndan samning Sameinuðu þjóðanna? Á það verður ekki fallist. Gleymum því ekki að slík fiskveiðistjórnarkerfi eru við lýði úti um allan heim, einkanlega hjá þróuðum fiskveiðiþjóðum sem lagt hafa á það áherslu að byggja upp kröftuga atvinnugrein á grundvelli auðlindanýtingarinnar. Má ég taka dæmi? Lönd eins og Ástralía, Kanada, Holland og Rússland nýta svona framseljanlegt aflamarkskerfi. Aðrir sem nota það að hluta til eru Bandaríkin, Noregur, Danmörk, Bretland og Evrópusambandið, svo að dæmi séu tekin.

Ég vil og hlýt að nefna líka fiskveiðistjórnarkerfi Færeyinga, fyrirheitna lands Frjálslynda flokksins þegar kemur að fiskveiðimálum. Þar nota menn einstaklingsbundin framseljanleg fiskveiðiréttindi, a.m.k. að hluta, ekki í formi kvóta heldur með fiskidögum. Á þessu tvennu er ekki eðlismunur þegar kemur að þeirri spurningu sem álit mannréttindanefndar fjallar um.

Þess vegna segi ég: Dettur einhverjum í hug að verið sé að dæma þetta fyrirkomulag úti um allan heim úr leik með skoðun mannréttindanefndar? Ég hef lagt á það áherslu að við stöndum nú frammi fyrir þessu viðhorfi mannréttindanefndar. Annars vegar legg ég áherslu á að menn taki álitið alvarlega, það þýðir að við getum ekki kastað til þess höndunum þegar við íhugum hvernig bregðast skuli við. Hins vegar verða menn að gera sér grein fyrir því að við erum að tala um rekstrarumhverfi þýðingarmestu atvinnugreinar okkar sem gegnir lykilhlutverki í efnahagslífi okkar. Fjöldi fólks hefur fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessarar greinar og hún er burðarásinn í atvinnulífinu úti um allt land. Menn verða því að tala af gætni og yfirvegun í þessari umræðu og þess vegna skulum við taka þann tíma sem við þurfum á að halda til að komast að sanngjarnri, skynsamlegri niðurstöðu og kynna það álit okkar fyrir mannréttindanefnd þegar þar að kemur.