135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:22]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt og tímabært að taka álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska fiskveiðistjórn hér til umræðu þó svo að það hafi verið hér til umræðu undir ýmsum liðum á undanförnum dögum. Sjónarmiðið eða álitið sem nefndin sendi frá sér er í meira lagi torskilið. Sex nefndarmenn mannréttindanefndarinnar tóku undir dóm þann sem kærendur fengu á sig í Hæstarétti Íslands en tólf nefndarmenn voru á annarri skoðun. Það verður að segjast eins og er að álitið er í meira lagi óskýrt því að helstu leiðir til að túlka það álit er að rýna í álit þau sem sexmenningarnir létu frá sér fara.

Samkvæmt áliti meiri hlutans ber stjórnvöldum í þessu sérstaka máli að veita sjómönnunum viðeigandi bætur og fara í gegnum endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ekki er nein leiðbeining frá nefndinni um það hvernig sú endurskoðun ætti að fara fram og hvaða markmiðum ætti að ná með endurskoðun. Hluti nefndarmanna gerir sér grein fyrir því að það er nauðsynlegt að stjórna fiskveiðum á þann hátt að þær séu sjálfbærar og skili arði og þar skilur á milli álits meiri hluta nefndarinnar og Hæstaréttar Íslands.

Það er nauðsynlegt, hæstv. forseti, að minna á það í þessu samhengi að margar fiskveiðiþjóðir víða um heima byggja á sambærilegum lagaákvæðum og Íslendingar og því er augljóst að álit meiri hlutans er á skjön við þá þróun sem er í heiminum varðandi fiskveiðistjórn og sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Það er einnig rétt að minna á að önnur stofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur eindregið mælt með sambærilegri leið og við Íslendingar höfum farið. Evrópusambandið, sem sumir eru mjög hrifnir af hér, mælir einnig með sambærilegri leið við endurskoðun sameiginlegrar fiskveiðistefnu sambandsins. Fiskveiðiþjóðir sem stunda fiskveiðar með það að markmiði að stunda þær með sjálfbærum og arðbærum hætti hafa farið sambærilega leið og Íslendingar. Þetta skulum við hafa í huga.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur verið að kynna sér efni og bakgrunn málsins á undanförnum fundum (Forseti hringir.) og mun gera það áfram og að sjálfsögðu taka þetta álit alvarlega og kynna sér bakgrunninn til hlítar.