135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:34]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Langt er seilst til að drepa þessu máli einhvern veginn á dreif.

Virðulegi forseti. Auðvitað gagnrýndum við málflutning Frjálslynda flokksins í heild sinni fyrir síðustu kosningar vegna þess að hann einkenndist af popúlisma og ól í mörgum tilfellum á andúð í garð útlendinga. Þar vil ég t.d. nefna vefsíðuskrif hjá ungliðum og fleira. Þar gekk umræðan um heilbrigðismál miklu lengra en nú, miklu lengra, og það veit hv. þingmaður. Ég kæri mig ekki um að fara að ræða þann málflutning hér eins og hann var. Mér finnst það ekki boðlegt hér í þingsölum.

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég tel að með þessu frumvarpi séum við að færast nær hinni raunverulegu framkvæmd útlendingalaganna og hér sé margt til bóta í málefnum útlendinga. Ég bið hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að fara með okkur í gegnum þá umræðu með heiðarlegum hætti, ekki draga fram svona hluti og ekki fara að draga okkur aftur inn í þá umræðu sem varð um málefni útlendinga fyrir síðustu kosningar og einkenndist oft af gríðarlega miklum sleggjudómum í þeirra garð. Ég vona að í nefndinni muni umræðan verða laus undan þeirri umræðu sem þá fór fram.