135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Birgi Ármannssyni, og ýmsum fleirum sem hér hafa talað, það er margt gott við þau nýmæli og þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu. Ég tel þó vert að kalla eftir skýringum á vissum atriðum sem hefði verið eðlilegt að ræða. Meðal annars velti ég nokkru fyrir mér í sambandi við 3. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um landamæraeftirlit og vikið að Schengen. Hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason var viðstaddur mikil hátíðahöld, mig minnir 21. desember, þar sem því var fagnað að nokkur ríki til viðbótar komu inn í Schengen-samstarfið. Ég velti fyrir mér í sambandi við það samstarf hvort það séu raunverulegir hagsmunir íslensku þjóðarinnar að við tökum þátt í Schengen-samstarfinu.

Áðan var hv. þm. Siv Friðleifsdóttir í ræðustól og talaði um að þetta byði upp á ýmsa möguleika. Hún rakti þar eitt nýlegt sakamál, sagði að ef ekki hefði komið til Schengen-samstarfsins væri óvíst að þar hefði mál verið upplýst. Mér er nær að halda að það sé gjörsamlega óviðkomandi Schengen-samstarfi enda byggir Schengen á eftirliti á ytri landamærum og upplýsingagjöf á milli landa. Englendingar og Írar telja t.d. heppilegra að vera utan Schengen-samstarfsins og ég velti fyrir mér hvort hagsmunum okkar sé ekki, á grundvelli þess að við búum við svipaðar aðstæður og þær þjóðir, betur borgið með því að vera utan Schengen-samstarfsins og haga landamæraeftirliti með svipuðum hætti og Írar og Englendingar gera en vera að öðru leyti í samráði við og með gagnvirka upplýsingagjöf á milli þessara þjóða og við Schengen-þjóðirnar. Við erum eyja og höfum því möguleika á virku landamæraeftirliti. Ég hygg að við gætum fengið allar upplýsingar og gætum að því leyti verið í samstarfi en haldið uppi virkara landamæraeftirliti. Ég tel, miðað við þá reynslu sem við höfum, að full ástæða sé til þess að mörgu leyti. Mér finnst eiginlega vanta frekari og fyllri lýsingar á því hvað gerir það að verkum að ótvíræðir hagsmunir séu af því að vera í Schengen-samstarfinu á móti því að við tökum upp landamæravörslu með svipuðum hætti og Englendingar og Írar gera.

Ég er mjög ánægður með að komið skuli vera ákvæði í tölulið c í 1. mgr. 8. gr. þar sem fjallað er um að útlendingur sem hér fær dvalarleyfi skuli þurfa að gangast undir læknisskoðun innan ákveðins tíma. Ég tel það til bóta, til hagsbóta bæði fyrir þann sem er að koma og fyrir þá sem fyrir eru í landinu. Við verðum að athuga að hér er um réttindi að ræða, fólk fær þá notið aðstoðar, virkrar hjálpar íslenska heilbrigðiskerfisins þannig að ef eitthvað er að er hægt að veita hjálp um leið og það kemur fram.

Það er annað atriði sem ég velti fyrir mér í þessu sambandi. Fyrst að hér er lagt til að innan tveggja vikna verði um að ræða læknisskoðun fyrir þann sem óskar dvalarleyfis velti ég fyrir mér hvernig standi á því að ekki er farið fram á að sá sem óskar dvalarleyfis leggi fram fyllri upplýsingar. Í d-lið þessarar sömu 8. gr. er vikið að því að heimilt sé að veita dvalarleyfi ef „ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laganna“. Það kemur ekki fram í greinargerð nein sérstök skilgreining á því hvað átt er við með d-lið eða til hvaða tilvika þetta getur tekið en ég get ekki séð að t.d. sakaferill viðkomandi skipti máli í þessu sambandi eða að vikið sé að því að sá sem óskar sér dvalarleyfis þurfi að leggja fram upplýsingar um það hvernig sakaferli hans sé háttað.

Ég hefði talið mjög mikilvægt í okkar stöðu, í því alþjóðasamfélagi sem við byggjum, að sem bestar upplýsingar lægju fyrir, m.a. um sakaferil þeirra einstaklinga sem hér óska eftir lengri dvöl. Ég tel það mjög mikilvægt af því að við erum þjóðfélag með tiltölulega opin landamæri og erum í EES-sambandinu sem byggir á frjálsri för nema við grípum til aðgerða — sem við höfum möguleika á komi til sérstakar aðstæður — að óskað sé eftir sem allra bestu upplýsingum um þá sem hér óska eftir dvöl, m.a. að þeir framvísi sakavottorði, til þess að eyða hugrenningum um að slá slöku við að afla slíkra og fyllri upplýsinga. Slíkir hlutir gætu komið í veg fyrir að hingað kæmu aðilar sem ætla sér að stunda skipulagða glæpastarfsemi. Það hefur verið talað um að svo kunni að hátta til í landinu í dag að hingað sé kominn hópur erlendis frá til að stunda skipulagða glæpastarfsemi og íslensk yfirvöld hafa ekki fyrirframákvæði eða -möguleika til að taka á því á landamærunum, hafa ekki úrræði samkvæmt lögum um útlendinga, og það er spurning hvort það mundi ekki henta öryggishagsmunum íslenskra borgara og annarra sem hér kalla eftir slíkum upplýsingum.

Ég tel líka mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að þeir útlendingar sem hingað eru komnir og þeir innflytjendur sem hér eru eiga sama rétt og við sem erum borin og barnfædd í þessu landi til að njóta mannréttinda og eðlilegs atlætis í þjóðfélaginu. Það er grundvallaratriði, við erum þjóðfélag sem sættir sig ekki við annað en að allir þeir sem hér búa njóti mannréttinda og sama atlætis og jafnréttis. Til að koma í veg fyrir árekstra, illindi eða fordóma er mjög mikilvægt að vanda til bæði landamæraeftirlits og annars eftirlits til að reyna að koma í veg fyrir að hingað komi hópar sem ætla sér ekki að stunda eðlilega og heiðarlega atvinnu, heldur vera þátttakendur í hugsanlega skipulagðri glæpastarfsemi. Það eru þessi atriði sem ber að varast og forðast og við frjálslynd höfum lagt mikla áherslu á að gætt sé að því að ekki myndist og viðhaldist fordómar á milli þeirra sem eru bornir og barnfæddir hér og þeirra sem koma. Til þess að koma í veg fyrir það sakar ekki að hafa visst eftirlit til að allar upplýsingar liggi fyrir og við meinum þeim einstaklingum aðgang sem koma hingað í öðrum tilgangi en góðum og heiðarlegum.

Við höfum gripið til aðgerða og lögreglan á t.d. þakkir skildar fyrir með hvaða hætti hún greip til aðgerða gagnvart Vítisenglum á sínum tíma þegar þeir voru á leiðinni til landsins og lögreglan hafði rökstuddan grun um að þar væru á ferð einstaklingar sem væru í öðrum tilgangi en þeim sem samrýmdust hagsmunum þjóðarinnar og borgaranna í landinu. Með sama hætti tel ég að yfirvöld eigi að fara fram þegar um slíka hættu eða grunsemdir er að ræða. Við höfum fyrst og fremst skyldum að gegna gagnvart því fólki sem er í landinu, sem er búsett í landinu af hvaða bergi sem það er brotið, en við berum ekki sömu skyldur gagnvart þeim sem ætla sér að koma til landsins. Við berum fulla ábyrgð og skyldur gagnvart þeim sem hingað eru komnir og okkur ber að virða mannréttindi þeirra og jafnrétti til fullnustu.

Að öðru leyti lýsi ég að mörgu leyti ánægju með það frumvarp sem hér er um að ræða. Ég vil taka þó eitt fram í lokin, í þessari umræðu hefur aðeins verið vikið að 24 ára reglunni sem á sínar skýringar og ég tel enga ástæðu til að hrapa að breytingum í því efni. Það hefur gefist vel að hafa þessa reglu, m.a. til að koma í veg fyrir þvinguð hjónabönd. Ég hef ekki heyrt röksemdir sem sannfæra mig um að það eigi að gera breytingar á þessu. Að öðru leyti lýsi ég ánægju með framkomið frumvarp.