135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það væri þannig að þingmenn hefðu talsverð áhrif á lagatextann þá væri þetta gott sjónarmið en svo er þó ekki. Um daginn vorum við að afgreiða málefni varðandi Skógræktina. Ég get nefnt það sem dæmi. Hver einasti umsagnaraðili var mótfallinn því sem verið var að gera, hver einasti eini, það var enginn með því og talsverður hópur þingmanna á móti því líka. En hvað gerði stjórnarmeirihlutinn? Breytti ekki, alls ekki. Það er það sem menn óttast. Þess vegna vilja menn fá málin þokkalega vel unnin hingað inn af því að svo virðist vera að meiri hlutinn gefi ekkert rými til breytinga eða alla vega allt of lítið rými. Þetta segi ég þótt ég hafi verið ríkisstjórnarmegin fyrir stuttu síðan. Þegar mál koma hingað inn þá virðist vera tilhneiging til að þeim verði ekki breytt, hvað sem hver segir og dæmið um Skógræktina var mjög lýsandi. Hver einasti umsagnaraðili á móti því sem verið var að gera. Samt var málið keyrt í gegn þannig að ég skil mjög vel hv. þm. Atla Gíslason að koma með athugasemd hér.