135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[20:51]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka hv. 7. þm. Suðurk., Atla Gíslasyni, fyrir að flytja þetta mál inn á þingið. Það gefur færi á að ræða það hér í þingsölum og í þingnefndum. Hvort sem menn eru með eða á móti þeirri leið sem hv. þingmaður leggur til, þá er vaxandi krafa af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að ákvæði líkt þessu, eða eins og felst í ILO-samþykktinni nr. 158 sem hv. þingmaður nefndi, um slíkan rökstuðning sem hv. þingmaður mælir hér fyrir, verði lögfest.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fjöllum um þetta í þingsölum. Það hefur verið fjallað um þetta í einhverja áratugi, tvo eða þrjá, hér í þingsölum, með einum eða öðrum hætti án þess að lyktir hafi fengist í málið. Það er því greinilegt að sjónarmið eru ólík í þessu efni.

Ítrekað hefur verið reynt, t.d. í félagsmálaráðuneytinu, að ræða þessi mál á þeim samráðsvettvangi sem þar er og reynt að ná sátt um ILO-samþykktina nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, án þess að niðurstaða hafi fengist í það mál. Það er rétt, sem hv. þm. Atli Gíslason nefnir, að þetta er ein af þeim kröfum sem nú eru settar fram í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins. Ég taldi því ástæðu til að fara nokkrum orðum yfir stöðu þessara ILO-samþykktar sem tengist náttúrlega máli hv. þingmanns þar sem þetta er liður í því sem ASÍ setur fram að því er varðar kröfugerð í kjarasamningunum.

Staðan er sú, ef ég rifja söguna upp í örstuttu máli, að árið 1984 fól félagsmálaráðuneytið lögmanni að setja fram greinargerð um hvaða áhrif fullgildingin á samþykkt ILO hefði. Meginniðurstaða lögmannsins, sem var Gestur Jónsson, var sú að með fullgildingu samþykktarinnar væri verið að gera grundvallarbreytingar á réttarstöðu atvinnurekanda og starfsmanns og meginreglan sé að atvinnurekandi geti sagt starfsmanni upp án þess að færa fyrir því nokkur rök. Samþykktin snúi þannig við þessari meginreglu að ekki sé heimilt að segja starfsmanni upp störfum nema til þess séu gildar ástæður.

Á þeim tíma varð ekkert framhald á málinu. Fullgildingin á samþykktinni var aftur rædd 1994 í samráðsnefnd ráðuneytisins og helstu samtaka á vinnumarkaði. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur heimild á grundvelli 19. gr. stofnskrárinnar óskað eftir því að aðildarríki tækju saman skýrslur um aðstæður sem snerta samþykktina sem þau hafa ekki fullgilt. Þetta var gert árið 1994 og í tengslum við skýrslugerðina kom til umfjöllunar að fullgilda samþykktina. En það tókst ekki eins og fyrri daginn að ná samstöðu milli ASÍ og SA um málið.

Þriðja tilraun til að ná samkomulagi um málið var gerð árið 2004. Málið var tekið fyrir á fundi ILO-nefndarinnar 29. nóvember 2004. Það var rætt á samtals níu fundum og loksins afgreitt hjá nefndinni í október 2005 með ítarlegu minnisblaði félagsmálaráðherra. Í því kom fram að himinn og haf væri á milli afstöðu ASÍ og SA í málinu. Í framhaldinu var þrýstingur á félagsmálaráðherra af hálfu ASÍ og einstakra þingmanna að samþykktin yrði fullgilt. Niðurstaðan varð sú að félag rannsóknarseturs í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann á Bifröst var fengið til að semja tillögur að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem kæmi þá í stað samþykktarinnar.

Í bréfi setursins, dagsettu 5. maí 2006, kemur fram að rétt sé að líta til reglna sem gilda um þetta efni í ríkjum sem standa Íslendingum næst í efnislegu og félagslegu tilliti. Markmiðið var að freista þess að finna grundvöll fyrir umbótum á þessu sviði sem aðilar væru þá sáttir um.

Í niðurstöðu rannsóknarsetursins, sem kom í september 2007 og var kynnt ILO-samráðsnefndinni í þeim sama mánuði, kemur fram að ekki sé flókið mál að útbúa leiðbeiningarreglur á grundvelli samþykktarinnar. Það sé hins vegar ljóst að nokkrum ákvæðum samþykktarinnar verði ekki hrundið í framkvæmd með leiðbeiningarreglunum einum og nefnd eru ákvæði sem lúta að áfrýjun uppsagnar, sönnunarbyrði og því hvaða áhrif niðurstaða dómstóla eða úrskurðaraðila mundu hafa.

Þá kemur fram að óljóst sé hvaða fyrirkomulag eigi að fylgja við setningu slíkra reglna þar sem það sé mjög mismunandi í nágrannaríkjunum. Niðurstaða rannsóknarsetursins er sú að ekki sé unnt að setja fram leiðbeiningarreglur um þetta efni nema til komi pólitísk stefnumörkun og nákvæmari tilsögn um það hvaða fyrirkomulagi rétt sé að vinna reglurnar eftir. Það hefur ekki frekar frá því í september 2007 verið fjallað um þetta mál á vettvangi þessarar ILO-nefndar og þannig er staðan nú í þessu máli sem lengi hefur verið þrætuepli milli aðila vinnumarkaðarins. Þannig að ég hygg nú að það verði erfitt að á fram einhverri málamiðlun eða niðurstöðu í þetta mál í kjarasamningum þó að ég geti ekki útilokað neitt í því sambandi.

Öndvert við hv. síðasta ræðumann tek ég undir ýmislegt sem fram kemur í greinargerð hjá hv. þm. Atla Gíslasyni. Hv. þingmaður nefnir t.d. miðaldra og eldra fólk með langan starfsaldur, að því sé sagt upp og yngra starfsfólk ráðið í staðinn. Það er alveg örugglega rétt hjá hv. þingmanni. Ég átti sæti í nefnd á vegum fyrrverandi félagsmálaráðherra sem fjallaði um stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði og fram kom að miðaldra fólk á vinnumarkaði lenti oft í miklum erfiðleikum. Það lenti oft í því ef harðnaði á dalnum að vera sagt upp á undan öðrum og ætti síðan mjög erfitt með að ná fótfestu á vinnumarkaðnum aftur eða fá annað starf. Þetta er því raunverulegt vandamál sem við stöndum frammi fyrir, ekki síst þegar atvinnuleysi er vaxandi.

En allt er þetta af hálfu atvinnulífsins sett fram til þess að hafa meiri sveigjanleika á vinnumarkaðnum sem er út af fyrir sig gott. Ég held að það sé rétt, og ekki hægt að afneita því, eins og mér fannst hv. þm. Pétur Blöndal gera, að vaxandi harka er á vinnumarkaðnum, m.a. að því er varðar þau atriði sem hv. þingmaður nefndi. Ég sé að það er athyglisvert sem hv. þingmaður nefnir í þessari greinargerð sinni. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í löggjöf flestra Evrópuríkja, meðal annars Norðurlanda, hafa engu að síður verið sett lög sem takmarka uppsagnarrétt atvinnurekanda. Þau hafa lögleitt skilyrði um það að gildar og málefnalegar ástæður verði að liggja til grundvallar ákvörðun um uppsögn. Þessi skilyrði hafa ekki raskað starfsskilyrðum og samkeppnisstöðu fyrirtækja í viðkomandi löndum Evrópu.“

Nú veit ég ekki hvort farið hefur verið nákvæmlega yfir, í þeirri athugun sem gerð var í Háskólanum á Bifröst, þau lög sem hafa verið sett í þessum Evrópuríkjum. En ég tel fulla ástæðu til þess að annaðhvort félagsmálaráðuneytið eða nefndin sem fær málið til umsagnar afli sér einhverrar vitneskju um hvernig þessi löggjöf er, sem sett er, eins og hér er vitnað til, í flestum Evrópuríkjum og vita hvort þar sé eitthvað sem við getum skoðað sem hægt væri að ná sátt um.

Ég vil ítreka, virðulegi forseti, að það er ágætt að málið er komið inn í þingsali. Ég vona að það fái góða umfjöllun í þingnefndinni sem fær það til meðferðar.