135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:12]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um leið og ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir sitt góða mál vil ég taka að mér að leiðrétta hana í einu atriði þótt ég sé varamaður á þessu þingi. Við erum svo heppin að hér situr hæstv. umhverfisráðherra og hún getur leiðrétt mig ef ég fer með rangt mál. En þetta varðar ráðherranefnd sem hv. þingmaður nefndi.

Í mínu minni er það svo að ráðherranefndin hafi skilað af sér og sé ekki starfandi lengur, að hún hafi verið skipuð fyrir ráðstefnuna í Balí og falið að hafa samráð um mótun stefnu Íslendinga fyrir ráðstefnuna í Balí. Að því verkefni loknu, sem lauk mjög giftusamlega að því er flestir telja, hefur þessi ráðherranefnd lokið störfum og starfar ei meir. En nú sýnist mér að umhverfisráðherra líti á mig þung á brún og sveifli sínu fagurlokkaða höfði. Hér er greinilega eitthvað meira í pípunum og biðst ég afsökunar á að sletta mér fram í þessa umræðu. Ég veit sem sé ekki betur en raun ber vitni. Ráðherra segir okkur þá frekar frá þessu á eftir.

Þetta var mitt álit. Sjálfsagt er að ráðherrar hafi með sér samráð um þetta. Það er svo sem í stíl við þessa tillögu sem ég tel vera jákvæða. Ég tók eftir henni á síðasta þingi og taldi að með henni hefði verið hugsað fram í tímann af ágætu viti. Það eru runnir upp aðrir tímar en einu sinni voru í heiminum og 1. janúar 2008 var ekki bara fyrsti dagur nýs árs heldur fyrsti dagur tímabils sem kennt er við borgina Kyoto í Japan og stendur fram til ársloka 2012, fyrsta tímabils þeirrar samningsbókunar sem skyldar þátttökuríkin til að hafa stjórn á mengunarlosun sinni í andrúmsloftið. Það er líka svo að á síðasta þingi voru í fyrsta sinn samþykkt lög á Íslandi um mengunarkvóta í stóriðju, að vísu aðeins þar en það skiptir mestu máli. Við lifum að tvennu leyti á nýjum tímum í þessum efnum.

Það má líka geta þess að síðasta ríkisstjórn setti sér og Íslendingum ákveðið markmið um losun gróðurhúsalofttegunda, metnaðarfull að öðru leyti en því að þau voru ákaflega fjarlæg. Þau miðast, ef ég man rétt en nú er ég farinn að efast um minni mitt í ræðustólnum, við árið 2050. Það liggur auðvitað fyrir þessari ríkisstjórn að ítreka þau markmið, endurskoða þau og færa þau nær þeim tímum sem við lifum, nær hinu raunverulega valda- og ráðasviði ríkisstjórnar og Alþingis. Ég hef alla trú á því að ráðherrarnir séu að undirbúa það. Það hefur gerst síðan, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, að það eru nýir tímar um alla veröld. Ég hygg að síðasta haust, bæði í Balí og Indónesíu en í raun einnig, í okkar fjölmiðlaveröld, ekki síður í höfuðborginni Ósló í Noregi, hafi gerst þau tíðindi sem hafi lokið upp þeim augum sem enn voru lukt gagnvart þeim vanda sem mannkynið á nú mestan við að stríða um þessar mundir. Ég ætla ekki að fjölyrða um það meira.

Menn þurfa hver á sínu sviði að fara í gegnum mál sín, taka á sínum málum eins og það heitir í ákveðnum geira samfélagsins. Í stjórnmálunum höfum við verið í svolitlu hléi frá þessu. Það er lognið á undan storminum, a.m.k. hlé á undan mikilli vinnutörn sem væntanlega hefst þegar sérfræðinganefnd á vegum ríkisstjórnarinnar skilar af sér undir forustu Brynhildar Davíðsdóttur. Það átti að vera í apríl en ég hef nú frétt að það verði í maí 2008 ef allt fer vel. Að því loknu tekur við tímabil ráðslags og samráðs og hugsanlega átaka og væntanlega einhverra skruðninga. Þetta er ekki þannig að allir gangi glaðir og brosandi til þess leiks sem fram undan er. Við þurfum að koma okkur saman, með hugsjónir okkar og hagsmuni, um hvernig við viljum hafa þetta í framtíðinni.

Eitt af því sem við þurfum að huga að í því sambandi er hvaða stjórnsýsla á að gilda á þessum nýju tímum og þar kemur tillagan um Loftslagsráð í ágætar þarfir. Ég held að ráð af því tagi geti orðið að töluverðu gagni. Þar verða auðvitað ekki teknar ákvarðanir með neinum hætti. Þetta verður ráðgjafarráð. Hlutverk þess hlýtur að vera það að veita opinberum aðilum ráðgjöf, ráðherrum, ríkisstjórn, Alþingi, sveitarfélögum að annast en þó einkum kannski styrkja rannsóknarstarf, benda á rannsóknarsvið sem á vantar. Mikilvægt hlutverk er líka nefnt hér, þ.e. fræðsla til almennings, til atvinnuveganna og til allra þeirra sem eiga að láta sig þetta varða, um þá lifnaðarhætti og aðgerðir sem eiga við þessa nýju tíma. Svona ráð getur orðið umræðuvettvangur og samráðsvettvangur sem nauðsynlegt er að hafa á komandi árum. Til þess þurfa allir að vinna saman í þessu ráði og ganga inn í það með reistu höfði og björtum huga og til þess þarf talsvert fjármagn. Við þekkjum það að 10–12 manns, eða hve margir verða í þessu ráði, dofna mjög fljótt ef ekki er fyrir hendi töluvert fé til starfsins og til að veita í rannsóknir, bæði innri rannsóknir og þær sem ráðið vill styrkja, fræðslu og ýmiss konar umræður um atburði.

Ég skal ekkert um það segja hvernig orðalag er heppilegt á þessari tillögu í sjálfu sér. Menn fara í gegnum það á þinginu og í umhverfisnefnd en ég vil sjálfur segja að ég held að tillagan sé þörf og ég mæli með að menn fari vel yfir hana í umhverfisnefndinni og athugi hvort ekki er ráð að samþykkja hana og láti sig engu skipta þó flutningsmenn hennar komi aðeins úr einum flokki. Hér á að horfa á textann en ekki flytjendurna.