135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:43]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið voða glöð fyrir hönd félaga minna, hv. þm. Marðar Árnasonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Gunnars Svavarssonar líka, fyrir hvað þau eru glöð yfir að sitja í fangi Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Ég er ekki þeirrar náttúru að ég geti ekki samglaðst fólki sem líður vel. Hins vegar finnst mér þau ekki öfundsverð, hæstv. forseti, af að þurfa að sitja í því fangi. Eins og ég sagði áðan tel ég að Þórunn Sveinbjarnardóttir, hæstv. umhverfisráðherra, hafi þurft að láta af sínum ýtrustu sjónarmiðum sem ég tel að fari saman með mínum þegar stefnan var birt áður en haldið var til Balí. Í stefnunni eins og hún var birt þá og olli talsverðum usla í þingsölum voru mjög óásættanleg ákvæði. Þau eru óásættanleg frá sjónarhóli þeirra sem vilja ganga langt í þessum efnum.

Ég skil hins vegar að hæstv. umhverfisráðherra skuli hafa þurft að gera þá málamiðlun sem mér finnst liggja á borðinu að hún hafi þurft að gera. Ég ítreka bara að ég hef ekki verið að lýsa yfir stefnu ríkisstjórnarinnar og ég er ekki sammála því sem hv. þm. Mörður Árnason segir, að ríkisstjórnin sé sammála um þær leiðir sem fara beri eða það sem gera eigi. Það sem ég hef fyrir mér í því eru áherslur umhverfisráðherra í loftslagsmálum. Þær eru ekki hinar sömu og birtust í desemberbyrjun, eða nóvemberlok, í þingsal og farið var með í farteskinu til Balí.

Ég vitna líka í grein úr Viðskiptablaðinu 17. október þar sem gerð er grein fyrir mjög ólíkum viðhorfum ráðherra í ráðherrahópi um loftslagsmál. Þar talar hæstv. umhverfisráðherra fyrir sjónarmiðum sem ég er sátt við en það er Geir Haarde sennilega ekki.