135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég sit ekki ríkisstjórnarfundi og veit ekki alveg hver situr þar undir hverjum, í fangi hvers, hvort iðnaðarráðherra situr undir fjármálaráðherra eða hvort það er öfugt og ég efast um að hæstv. umhverfisráðherra sitji mikið í fanginu á hæstv. heilbrigðisráðherra þótt þeim komi vel ásamt.

Um stefnu ríkisstjórnarinnar er það að segja að eins og ég sagði áðan eru þar nefndir þeir möguleikar sem uppi eru, þeir kostir sem eru í stöðunni og það er sjálfsagt þegar menn ganga til samninga að þeir geri það varlega, haldi öllu opnu áður en samningar takast. Ég held að það hafi ekki verið hyggilegt, hvorki af hæstv. umhverfisráðherra né öðrum ráðherrum, að gera ekki ráð fyrir þessu. Ég verð að segja fyrir sjálfan mig að ég er ósammála hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að eitthvert tiltekið atriði í plagginu sem búið var til fyrir Balí-fundinn sé óásættanlegt og ég kannast ekki við það. Það er svo spurning hvernig þessi blanda verður og hvernig menn haga málum sínum, hvort við Íslendingar sættum okkur við stefnu stjórnvalda í þessum efnum eða ekki. Það ósköp einfaldlega bíður síðari tíma og ég held að við höfum stigið gæfuskref í fyrsta áfanga og tel ráðlegt að láta bölbænir lönd og leið og bíða eftir því hvort annað og þriðja skref verði ekki af svipuðu tagi.