135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:01]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að græða landið eins og bændur gera og sjómenn græði hafið. Mér finnst þetta satt best að segja ótrúleg framsetning á þessu máli. Þeir sem hafa verið eitthvað til sjós vita að troll, dregin veiðarfæri og snurvoð, hafa önnur áhrif á botn en kyrrstæð veiðarfæri, lína, net og handfæri. Togveiðarfæri og snurvoð eru ekki besti kostur varðandi botninn.

En það er munur á snurvoð og trolli. Með trolli er farið yfir harðan botn, oft holóttan, og jafnvel oft að menn festi troll á hörðum botni en hlerarnir á stærstu togurunum, orðnir 5–6 tonn hvor hleri, bryðja allt sem fyrir þeim verða. Snurvoðin er yfir höfuð ekki notuð nema á linum botni og þar er munur, töluvert mikill munur.

Þetta vita sjómenn. Þetta þarf ekkert að rannsaka. Ef menn eru að tala um þetta í Vinstri grænum, að þeir vilji koma með tillögur að náttúruvernd, uppbyggingu og friðlýsingu á hafsvæðum, eiga þeir bara að segja: Það á að banna snurvoð og botntroll. Ef menn eru að tala um umhverfismál og að það þurfi að vernda botnsvæði eiga þeir bara að þora að (Forseti hringir.) og segja það. (Forseti hringir.) Ég er ekki hlynntur því að banna snurvoð og troll.