135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[15:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir góðar óskir til þess fyrirtækis sem nú hefur fengið úthlutað þeim byggðakvóta fyrir sl. ár sem fráfarandi fyrirtæki eða Stapar ehf., taldi sig ekki geta nýtt m.a. vegna vanefnda — þótt ekki væru skriflegar — af hálfu stjórnvalda. Þeir töldu sig hafa væntingar eða það hefðu verið vilyrði fyrir fjármögnun sem síðan reyndist ekki vera innstæða fyrir hjá fyrrverandi ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem áfram sitja í … (Gripið fram í: … Framsóknarflokksins …)

Hins vegar ber á að líta að eigið fé fyrirtækja og einstaklinga á þessum svæðum er ekki mikið, þannig að þegar krefjast verður verulegs framlags eigin fjár á móti er vandi um að gera. Þetta fyrirtæki mun þurfa að leigja til sín fiskveiðiheimildir upp á 250 tonn og greiða fyrir það 60 millj. kr., eitthvað þess háttar, auk þess að taka á leigu mannvirkin. Þetta var það líka sem stóð í veginum fyrir eða hamlaði fyrri útgerðum, það var að þeir áttu ekki eigið fé til þess að leggja þarna á móti inn.

Það er þessi stuðningur sem ég held að byggðamálaráðherrann verði að gera sér grein fyrir að það er ekki eigið fé til á stöðunum, ekki heldur til að taka á móti framlögunum til uppbyggingar ferðaþjónustu sem hæstv. ráðherra var að minnast á því þar á líka að koma með mótframlög. Átta millj. kr. framlag krefst annars átta millj. kr. framlags frá heimamanni og það er kannski ekki svo auðveldlega til.

Þess vegna held ég að við verðum bara að horfa raunsætt á málin. (Forseti hringir.) Burt með þetta fiskveiðistjórnarkerfi (Forseti hringir.) en eigið fé byggðanna er uppurið og (Forseti hringir.) þar verðum við að koma inn á samhjálpargrunni, frú forseti.