135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:39]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að þeim ummælum mínum sem ég viðhafði í ræðu minni, að ég teldi að krónan væri að verða viðskiptahindrun sem ekki væri hægt að búa við til langframa. Sú skoðun mín er í sjálfu sér óháð stöðunni sem nú er uppi á íslenskum fjármálamarkaði eða í íslenskum efnahagsmálum. Það má eiginlega segja að það sé meira prinsippafstaða eða grundvallarviðhorf sem tengist því að þegar fjármagnsflutningar eru orðnir frjálsir, eins og nú er raunin, og fyrirtæki okkar, bankarnir okkar alþjóðlegir og stærð þeirra eins og raun ber vitni þá fái ekki staðist til langframa að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil á þessu svæði.

Það er hins vegar ekki dagaspursmál í mínum huga varðandi krónuna. Við höfum oft búið við viðskiptahindranir langtímum og jafnvel áratugum saman án þess að það hafi í sjálfu sér sett allt á hvolf í íslensku samfélagi. Ég tel að þetta sé stefnumið sem við þurfum að hafa og eigum að hafa og það leiði af þeirri alþjóðavæðingu sem orðin er.

En eins og ég segi. Það er ekki dagaspursmál, virðulegur forseti, og það tengist heldur ekki einvörðungu þeirri stöðu sem nú er uppi á íslenskum fjármálamarkaði.