135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef síður en svo á móti því að menn styðjist við söguna og dragi af henni lærdóma, að menn líti til baka og velti fyrir sér atburðum úr liðinni tíð en þá er tvennt mikilvægt, þ.e. ef menn vilja sýna sanngirni og vera málefnalegir í sinni nálgun. Í fyrsta lagi að menn sýni umræðunni þann skilning og virði þá staðreynd sem ég nefndi áðan að hún er alltaf barn síns tíma. Hún fer fram á tilteknum aðstæðum, við tiltekið andrúmsloft, í tilteknum tíðaranda og 15, 20 að ég tali ekki um enn fleiri árum síðar er mjög ósanngjarnt að taka hana og setja hana inn í samtímann og dæma síðan málflutninginn út frá því. Í öðru lagi, sem skiptir miklu máli þegar rætt er um pólitík og litið er í baksýnisspegil, að það hefur takmarkað upp á sig að ræða hana í þáskildagatíð, ef við hefðum nú gert þetta en ekki hitt, hvernig væri Ísland þá? Það er engin leið að vita það.

Mér finnast stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu og áköfustu fylgjendur þess að við eigum nú um stundir eiginlega allt gott samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þakka, gjarnan falla á því prófi að gefa sér að ef ekki hefði verið valin nákvæmlega þessi leið samskipta við Evrópusambandið hefði ekkert annað komið í staðinn. Því getum við auðvitað ekki svarað. Hvernig Ísland stæði í dag og hvernig búið væri um samskipti okkar við Evrópusambandið, hvernig viðskiptakjör okkar væru og hvernig aðgangur okkar að samvinnu við önnur Evrópuríki væri, ef við hefðum farið inn á eitthvert annað spor. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft sitt fram, sem var afstaða hans fram að 1991, að við ættum að velja leið tvíhliða samninga, ef þetta hefði farið á einhvern annan veg, því að það er svo erfitt að ræða um stjórnmál á líðandi stund í þáskildagatíð út frá einhverju sem hefði getað orðið ef við hefðum tekið aðra (Forseti hringir.) ákvörðun fyrir 15 árum síðan.