135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

siglingar olíuflutningaskipa í efnahagslögsögunni.

[15:29]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að sá búnaður sem nú er fyrir hendi í landinu dugi. Hann hefur dugað okkur vel og hann mun duga áfram, en það þarf að gera betur og áformin ganga út á það. Þær áætlanir hafa verið samþykktar af mér, og fjárveitingar hafa líka verið samþykktar á þinginu til að ráðast í þetta.

Nýjar þyrlur eru ekki hristar fram úr erminni og skip ekki heldur. Það tekur að sjálfsögðu sinn tíma að byggja þessi tæki og búa þau út með þeim hætti sem þarf. Að þessu öllu er unnið.

Það er algjörlega ástæðulaust af hálfu hv. þingmanns að láta eins og að íslensk stjórnvöld séu ekki með hugann við þessi viðfangsefni. Það hefur verið gert. Stofnað hefur verið til alþjóðlegs samstarfs og síðan er spurningin hvort setja eigi hér reglur um siglingar skipanna sem eru ekki endilega á verksviði mínu. Landhelgisgæslan hefur komið með ábendingar, m.a. varðandi siglingar á milli Íslands og Grænlands og einnig fjarri ströndum okkar ef svo ber undir.