135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

168. mál
[16:15]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir það nokkuð merkileg yfirlýsing frá hæstv. forsætisráðherra að hann vilji, ef ég reyni að endurtaka það, ræða embætti forseta Íslands á svipuðum nótum og hv. þm. Jón Magnússon fitjaði hér upp á. Hv. þm. Jón Magnússon lagði hér í raun fram tvær tillögur. Annars vegar þá að afnema þingræðið á svipaðan hátt og gert er í Bandaríkjunum, þannig að forseti annaðhvort skipi forsætisráðherra eða gerist sjálfur forsætisráðherra. Hins vegar þá að forsetinn yrði með einhverjum hætti þjóðkjörinn sem forseti Alþingis, sem mér heyrist vera ný tillaga í þessari umræðu og hef ekki alveg skilið. En þetta er slík gjörbreyting á stjórnmálum á Íslandi, á skipun stjórnmála og stjórnkerfis á Íslandi, að hæstv. forsætisráðherra ætti kannski ekki að vera svona spar á undirtektir sínar og hugleiðingar um þetta, ef þær eru eitthvað annað en lauslegar vangaveltur.

Við ræddum þetta aðeins um daginn og þá var minnst á það að hugmyndin um afnám þingræðis er ekki ný af nálinni. Frægust er hún í útgáfu Vilmundar Gylfasonar, fyrrverandi þingmanns, sem hefur haft mikil áhrif og miklu meiri en menn grunaði þá á eftirmenn sína hér á þinginu og í samfélaginu. Enn eru til þeir menn, t.d. hæstv. viðskiptaráðherra, sem eru sammála hinni gömlu hugmynd Vilmundar um að afnema þingræði með einhverjum hætti.

Það eru nokkrar leiðir til þess. Leið Vilmundar var sú að forsætisráðherra yrði kjörinn í beinum kosningum auk forsetans, en leið Jóns Magnússonar gæti líka komið til greina, að forsetinn yrði kjörinn svipað og í Bandaríkjunum og skipaði forsætisráðherra eða gerðist sjálfur forsætisráðherra. Þetta eru breytingar sem mér þykir gaman að velta fyrir mér og fróðlegt, en tel nú kannski ekki vera brýnasta viðfangsefni dagsins og hafa auðvitað ýmsa galla. Hefðu þó þann kost að með afnámi þingræðisins yrði skilið mjög vandlega og rækilega og kirfilega á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds sem eru pólitísk markmið sem menn hafa haft mjög í orði en miklu síður á borði undanfarin ár.

Ég er sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni um það að endurskoða þarf kaflann um forseta Íslands í stjórnarskránni. Þar eru ákvæði sem — við skulum kalla þau úrelt, ef þau hafa þá nokkurn tíma átt sér stoð — sjálfsagt er að losa bæði þingforseta og þjóð undan, orðalag sem ekki er farið eftir um forsetann og dæmi voru nefnd um í ræðu þingmannsins.

Aðrir kaflar kunna svo að vera brýnni, t.d. kaflinn um dómsvaldið sem er nánast ekki til. Og ég skil ekki hvers vegna stjórnarskrárnefndin, formenn flokka og þingmenn hér á þinginu hafa ekki komið sér saman um að búa hann til og leggja fyrir stjórnarskrárgjafann. Það er vissulega rétt að það þarf að skýra og skilgreina betur en gert er í stjórnarskránni þennan kafla um valdsvið forsetans. Ég legg það inn í þessa umræðu að ég tel að um leið og hann er losaður við þá undarlegu formvenju að þurfa að samþykkja eða leggja fram, eftir því hvernig menn túlka það, stjórnarfrumvörp, jafnvel þau stjórnarfrumvörp sem honum sjálfum er gert að taka afstöðu til sem hluta af löggjafarvaldinu, síðar í lagaferlinu — það er ákaflega sérkennileg staða fyrir forsetann að leggja fyrst fram frumvarp að forminu til og þurfa síðan að taka afstöðu til þess hvort hann á að samþykkja slíkt frumvarp jafnvel óbreytt þegar kemur að því að láta það taka gildi. Ég tel að þetta sé eitt af þeim ákvæðum sem kemur til greina að afnema.

Ég tel á hinn bóginn að full ástæða sé til að skoða hvort ekki á að fela honum með skýrum hætti völd sem menn deila nú um hvort forsetinn hefur, t.d. þingrofsvaldið sem margir hafa túlkað sem svo að sé í höndum forsætisráðherra hverju sinni en er þó álitamál, ef upp kæmi um það ágreiningur, hvort ekki er á höndum forseta.

Annað sem ég held að við ættum að skoða hér, Íslendingar, er það að vegna sífelldra vandræða, sem nýleg dæmi eru um, um skipan dómara, hvort forsetinn geti þar sem æðsti embættismaður og þjóðkjörinn leiðtogi haft eitthvað að segja, skipað þá sjálfur eða tekið þátt í því ferli, þannig að allir mundu una betur við en nú er.

Frumvarp hv. þm. Ellerts B. Schrams fjallar ekki um þessi mál, heldur fjallar það um það praktíska og ágæta mál að losa handhafana undan því að þurfa að sinna störfum forseta meðan hann bregður sér milli bæja í samræmi við nútímahætti og störf forsetans. Það er rétt að vekja athygli á því, vegna þess sem fram hefur komið í umræðunni, að frumvarp hv. þingmanns og annarra flutningsmanna gengur ekki út á það að leggja handhafana niður, heldur að takmarka störf þeirra við sjúkleika eða aðrar ástæður, sem tefja forsetann frá störfum eða hindra hann í störfum, sem stjórnarskráin tiltekur sumar og aðrar koma fram í venjum og samkvæmt samkomulagi.

Það er því ekki mjög mikil breyting sem hér er lögð til en hún er eðlileg. Hún er ákveðin nútímavæðing á þessum samskiptum og hún dregur úr kostnaði ríkisins af hinni æðstu stjórn. Ef það er eitthvað sem nýtur hér almannahylli þá er það nú það að eyða ekki of miklum peningum í tildur og hégóma.